Fara í efni
Hrísey

Hrísey: fleiri lóðir og lægri gatnagerðargjöld

Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að framlengja 75% afslátt af gatnagerðargjöldum í Hrísey sem settur var á árið 2019. Afsláttturinn mun gilda til ársloka 2024.

Hverfisráð Hríseyjar hafði áður óskað eftir því að gatnagerðargjald yrði alfarið fellt niður í stað þess að gefinn væri afsláttur af gjöldunum til hvatningar fyrir hugsanlega lóðakaupendur og til þess að bæta samkeppnisstöðu Hríseyjar gagnvart nærliggjandi byggðakjörnum þar sem þessi gjöld hafa verið felld niður við tilbúnar götur. Skipulagsráð lagði til að 75% afslátturinn yrði framlengdur til ársloka 2024 og samþykkti bæjarráð það.

Deiliskipulagsvinna að hefjast við Miðbraut

Að sögn Péturs Inga Haraldssonar, sviðsstjóra skipulagssviðs Akureyrarbæjar, eru nú til fjórar lausar íbúðalóðir í Hrísey, við Austurveg 15, 17, 19 og 21. Áður voru þrjár lóðir lausar við Búðartanga en búið er að úthluta þeim og komið byggingarleyfi á eina þeirra. Þá mun byggingarlóðum fjölga í eyjunni því deiliskipulagsvinna er að hefjast við Miðbraut, á milli Gamla skóla og Miðbrautar 13. Óvíst er hversu margar lóðir munu bætast við þar.