Fara í efni
Hrísey

Færðu Narfa 2 milljónir til að stofna rafíþróttadeild

Höfðingleg gjöf! Frá vinstri, Díana Björg Sveinbjörnsdóttir, Hrund Teitsdóttir og Ingólfur Sigfússon, sem eru í stjórn Narfa, og Elín Árnadóttir. Mynd af vefnum hrisey.is

Ungmennafélaginu Narfa í Hrísey var færð höfðingleg gjöf um helgina. Fyrirtækið Menja ehf, sem er í eigu hjónanna Árna Ólafssonar og Elínar Árnadóttur,  hefur ákveðið að styrkja félagið um rúmar 2 milljónir króna til að kaupa búnað og allt það sem þarf til að stofna rafíþróttadeild fyrir börn og unglinga í Hrísey.

Elín, sem ólst upp í Hrísey, tilkynnti um styrkveitinguna á Grautardegi í eynni á laugardaginn að því er fram kemur á vefnum hrisey.is. Keyptar verða 5 fullkomnar tölvur, skjáir og fylgihlutir ásamt PlayStation 5 leikjatölvu og er áætlað að rafíþróttaæfingar hefjist á næstu vikum. 

„Áhugi á rafíþróttum hefur farið vaxandi á undanförnum árum þar sem áhersla er lögð á að tvinna saman tölvuleikjaspilun, hreyfingu og heilsu og munu krakkar í Hrísey nú fá tækifæri til að æfa rafíþróttir við bestu mögulegu aðstæður. Samstarf verður við rafíþróttadeild Þórs á Akureyri varðandi útfærslu á starfinu,“ segir á vefnum.

„Við í stjórn UMF Narfa eigum ekki orð til að lýsa þakklæti okkar fyrir hönd félagsins en færðum Ellu blómvönd með þakklætiskveðjum til þeirra hjóna við þetta tilefni,“ segir í frétt á vef Hríseyjar.