Fara í efni
Hrísey

„Dánarvottorðið“ varðveitt í Hrísey

Sveinn Jónsson, Árni Logi Sigurbjörnsson meindýraeyðir og Ása Marinósdóttir með „dánarvottorð“ rottunnar, þegar það var hengt upp í Húsi Hákarla-Jörundar í Hrísey á dögunum.

Þrjátíu ár eru um þessar mundir síðan Árni Logi Sigurbjörnsson, meindýraeyðir, útrýmdi rottum í Hrísey, á Hauganesi og Árskógssandi. Af því tilefni lét hann ramma inn myndasyrpu um verkefnið, „dánarvottorð“ rottunnar eins og hann kallar það, og því hefur nú verið komið fyrir á hákarlasafninu í Hrísey, í Húsi Hákarla-Jörundar.

Árni Logi fór út í eyju með „vottorðið“ á dögunum ásamt hjónunum úr Kálfskinni á Árskógsströnd, Sveini Jónssyni, sem lengi var oddviti Árskógshrepps, og Ásu Marinósdóttur, ljósmóður.

Það var Sveinn sem fékk Árna Loga til verksins á sínum tíma. „Árni Logi er magnaður, hann gerði hluti sem aðrir höfðu reynt en ekki tekist. Það var búið að reyna margt áður en hann kom til okkar,“ segir Sveinn við Akureyri.net. „Árni Logi er svo útsjónargóður. Menn voru með alls konar eitur en hann lifði sig inn í verkefnið eins og tófubani.“ Rottan hefur mikið vit í kollinum, að sögn Sveins, en Árni Logi lék á hana.

Sveinn lenti sjálfur í vandræðum heima í Kálfskinni. „Ég bjó mér til fóðursíló yfir mjaltabásinn en rotturnar nöguðu sig í gegnum krossviðinn, þær eru svo illvígar. Árni Logi hjálpaði mér að hreinsa til, ég á honum því töluvert að þakka.“

Ekki hefur orðið vart við rottu í þessi 30 ár þar sem Árni Logi var að störfum á sínum tíma, að sögn Sveins.

Árni Logi útrýmdi raunar bæði rottu og mink úr Hrísey. „Sveinn frétti af góðum árangri mínum á Melrakkasléttu og spurði hvort ég væri til í að koma. Ég átti efni sem ég notaði til að eyða vargfugli og það reyndist vel á rottuna. Ég fann út hvað henni þótti best að éta, blandaði efninu saman við það og þær sofnuðu á staðnum,“ segir Árni Logi.