Fara í efni
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri

Milljón frá Oddfellow og búnaður frá Hollvinum

Helga Björg Jónasdóttir frá Oddfellowstúkunni Laufeyju, Þórdís Rósa Sigurðardóttir verkefnastjóri heimahlynningar og Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk.

Oddfellowstúkan Laufey nr. 16 færði Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) ein milljón króna að gjöf á dögunum. Féð á að nota til búnaðarkaupa í hús sem minningar- og styrktarsjóður heimahlynningar afhenti stofnununum fyrir skömmu.

Hollvinir SAk hafa einnig gefið ýmis heimilistæki bæði stór og smá í húsnæðið. „Það er afar mikilvægt að geta búið húsnæðið vel bæði til að auðvelda þeim sem þar dvelja og ekki síður fyrir starfsfólk heimahlynningar,“ segir á vef SAk.

„Nýverið afhenti minningar- og styrktarsjóður heimahlynningar húsnæði í Götu sólarinnar við Kjarnaskóg. Húsnæðið er ætlað fyrir einstaklinga sem af einhverjum ástæðum geta ekki dvalið heima og þurfa líknarþjónustu utan sjúkrahúss og þurfa umönnun heimahlynningar,“ segir einnig á vef SAk. Sjúkrahúsið og HSN munu reka húsnæðið í sameiningu. Stofnanirnar tóku formlega við húsnæðinu þann 15. september.