Fara í efni
Hjólreiðar

Körfubolti: Stórt tap Þórs gegn Breiðabliki

Christian Caldwell sækir að körfu Breiðabliks. Voijtec Novák (72) og Veigar Elí Grétarsson (77) til varnar. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Þórsarar áttu litla möguleika gegn Breiðabliki þegar liðin mættust í 2. umferð 1. deildar karla í körfuknattleik í Íþróttahöllinni á Akureyri í gær. Þegar upp var staðið munaði 31 stigi, lokatölur 80-111. Þjálfarar Þórsliðsins eiga verk fyrir höndum að bæta ýmsa þætti í leik liðsins, varnarleikinn sérstaklega. 

Gestirnir höfðu fimm stiga forystu eftir fyrsta leikhlutann, en annar leikhlutinn varð að martröð fyrir Þórsara sem skoruðu 13 stig á móti 31 stigi gestanna og munurinn orðinn 23 stig eftir fyrri hálfleikinn. Tveir af erlendu leikmönnum Þórs, Caldwell og Moyer, báðir með þrjár villur eftir fyrri hálfleikinn og enduðu með fimm. 

Þórsarar hresstust um tíma þegar leið á þriðja leikhlutann, en það varði stutt og Blikar juku forskotið á ný og voru 30 stigum yfir fyrir lokafjórðunginn. Fjórði leikhlutinn var sá jafnasti í leiknum, eins og oft vill reyndar verða í ójöfnum leikjum þegar lykilmenn eru hvíldir.

Francisco (Paco) del Aquilla, hávaxinn miðherji, lék með Þórsurum í gær, en hann var frá vegna meiðsla í fyrsta leiknum og virðist reyndar ekki orðinn heill af þeim meiðslum.

Luke Moyer sækir að Blikum, Paco del Aquilla og Pétur Cariglia (33) klárir að fá boltann. Sardar Calhoun og Marinó Þór Pálmason (7) til varnar. Moyer er skráður með fjórar villur í tölfræði leiksins, en ekki varð þó betur séð en að hann hafi farið út af með fimm villur því hann fékk á sig tæknivillu fyrir athugasemd við dómara þegar hann var sjálfur að taka vítaskot. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Þór - Breiðablik (15-22) (13-31) 28-53 (26-31) (26-27) 80-111

Christian Caldwell skoraði mest Þórsara, eins og í fyrsta leiknum. Luke Moyer kom næstur með 17 stig. Axel Arnarsson tók átta fráköst. 

Helstu tölur Þórsliðsins, stig/fráköst/stoðsendingar: 

  • Cristian Caldwell 21/4/2 - 24 framlagspunktar, 3 stolnir boltar
  • Luke Moyer 17/1/4
  • Páll Nóel Hjálmarsson 11/0/1
  • Týr Óskar Pratiksson 10/1/1
  • Finnbogi Páll Benónýsson 5/3/0
  • Arngrímur Friðrik Angantýsson 5/0/0
  • Axel Arnarsson 4/8/3
  • Aron Geir Jónsson 3/0/0
  • Paco Del Aquilla 2/7/1
  • Smári Jónsson 2/1/2

Sardaar Calhoun skoraði 22 stig fyrir Breiðablik og Voijtec Novák 20 stig og tók níu fráköst.

Þórsarar eru án sigurs eftir fyrstu tvær umferðirnar, eins og Fylkir og Skallagrímur. Haukar, Breiðablik og Sindri eru á toppnum með tvo sigra í tveimur leikjum.

Tölfræði leiksins.

Staðan í deildinni.