Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Skírteini Sveins á Yztamói frá 1867

SÖFNIN OKKAR – XXV

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Skjal vikunnar hefur skráningarnúmerið G-40/5 og kom til safnsins 24.9.1970, frá Amtsbókasafninu. Héraðsskjalasafnið var formlega stofnað 1.6.1969 en undirbúningurinn hafði þó staðið frá því um sumarið 1967. Margvísleg skjöl voru þá í vörslu Amtsbókasafnsins og eftir að Héraðsskjalasafnið varð til tók það við þeim skjölum til varðveislu. Skjalið sem hér er fjallað um er eitt af þeim en í aðfangabók segir um upprunann ekki annað en að „hver sem er“ hafi komið því til Amtsbókasafnsins.

Það er Jón Sigurðsson – Jón forseti – sem skrifar undir skjalið.

Samkvæmt skjalinu þá var Svein Sveinsson á Yztamói kjörinn sem reglulegur félagi Hins íslenska bókmenntafélags þann 23. maí 1867.

Hið íslenska bókmenntafélag var stofnað árið 1816 og var grundvallarstefna þess í upphafi að reisa við sjálfstæðar menntir og menningu á Íslandi undir forystu Íslendinga sjálfra, þannig að íslensk þjóðmenning yrði virkt afl í sókn þjóðarinnar til andlegra og efnalegra framfara. Félagið starfar enn og hefur gefið út mörg rit allt frá stofnun. Félagið hefur gefið út tímaritið Skírni síðan 1827 og mun það vera elsta tímarit á Norðurlöndum.

Undirskrift kjörbréfsins er Jón Sigurðsson p.t. forseti. P.t. stendur fyrir pro tempora þ.e. „sem stendur“. Jón Sigurðsson (1811-1879) var forseti Kaupmannahafnardeildar félagsins 1851-1879 og þess vegna var hann þekktur sem „Jón forseti“ en er þó mun þekktari sem leiðtogi þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld.

Okkur hefur ekki tekist að ráða í hver skrifar skjalið að öðru leyti en ábendingar þar um eru vel þegnar.

Yztimór er í Fljótum en Sveinn Sveinsson (1845-1894) byrjaði þar búskap 1867 og bjó til 1870 er hann fluttist að Efra-Haganesi og bjó þar stórbúi til 1888. Um hann má lesa meira í Skagfirskum æviskrám, tímabilið 1860-1890, I. bindi bls. 256-7.