Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Málverk Þorsteins Þ. af Akureyri árið 1916

SÖFNIN OKKAR – 84

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

 

Málverk af Akureyri eftir Þorstein Þ. Þorsteinsson

Minjasafnið á Akureyri varðveitir ýmsa muni, stóra sem smáa. Þar af eru nokkur málverk og að þessu sinni er eitt slíkt til umfjöllunar. Málverkið er 77x66 sentimetrar án ramma, málað á viðarplötu og sýnir Akureyri að kvöldlagi. Í forgrunni má meðal annars sjá Amtmannshúsið, Gamla barnaskólann og Samkomuhúsið en fjær er Torfunefsbryggja og Oddeyri. Verkið er merkt Þ.Þ.Þ. ásamt ártalinu 1916 og er eftir Þorstein Þ. Þorsteinsson.

Ljósmynd af Þorsteini ásamt undirskrift hans. Mynd tekin af timarit.is, úr grein Gunnars Stefánssonar um Þorstein. Sjá: Gunnar Stefánsson. „Svarfdælskt skáld í Vesturheimi.“ Norðurslóð 31, nr. 12 (2007): bls. 8–9.

Þorsteinn fæddist 11. nóvember árið 1879 á Uppsölum í Svarfaðardal en ólst upp á Syðra-Hvarfi í Skíðadal. Hann gekk í Hólaskóla í Hjaltadal og varð búfræðingur þaðan árið 1900. Ári síðar freistaði hann gæfunnar og fluttist til Vesturheims og bjó lengst af í Winnipeg. Þar starfaði hann sem fræðimaður, málari og ljóðskáld. Gaf hann út nokkrar ljóðabækur en þekktasta verk hans er líklega fræðiritið Saga Íslendinga í Vesturheimi (höfundur fyrstu þriggja bindanna af fimm). Þorsteinn var staddur á Íslandi á árunum 1920–1921 og 1933–1938. Í seinna skiptið hugðist hann flytja alfarið til Íslands en úr því varð þó ekki og kom Þorsteinn ekki aftur til Íslands eftir 1938, en hann lést á Þorláksmessu 1955. Þorsteinn hafði komið því í kring að jarðneskar leifar hans og seinni konu, Goðmundu Haraldsdóttur, yrðu fluttar til Íslands að honum látnum. Goðmunda hafði þá látist nokkrum árum áður. Það var gert vorið eftir og aska þeirra jörðuð í Vallakirkjugarði í Svarfaðardal, en Vallakirkja var sóknarkirkja Þorsteins í æsku.

 

Málverk Þorsteins Þ. Þorsteinssonar af Akureyri frá 1916.

Ljósmynd Hallgríms Einarssonar, tekin 3. ágúst 1912.

Sama mynd Hallgríms en nú lituð og á póstkorti. Líklegt þykir að sambærilegt póstkort sé fyrirmyndin að verki Þorsteins. 

Þorsteinn þótti flinkur og góður teiknari. Hann teiknaði og gaf út nokkrar myndir af þekktum Íslendingum í þjóðlegum stíl og voru þær til víða á heimilum hér á landi og í Vesturheimi á fyrri hluta síðustu aldar. Þá málaði hann einnig nokkuð með olíulitum og er þetta málverk af Akureyri eitt þeirra. Þorsteinn hefur málað verkið í Vesturheimi líklega eftir póstkorti eða ljósmynd. Verkið er til að mynda mjög líkt ljósmynd sem Hallgrímur Einarsson ljósmyndari tók frá sama sjónarhorni árið 1912 og var notuð á póstkort. Smávægilegar breytingar eða viðbætur hefur Þorsteinn gert en það verður að teljast líklegt að umrædd mynd Hallgríms sé fyrirmynd verksins.

 

Þorsteinn teiknaði og lét prenta nokkrar myndir af þekktum Íslendingum og prýddu þær mörg heimili á fyrri hluta 20. aldar, bæði á Íslandi og í Vesturheimi. Ein mynda hans var af Jóni Sigurðssyni forseta. 

Steindór Steindórsson frá Hlöðum hafði uppi á verkinu í þorpinu Baldur í Manitoba en það hafði þá verið í geymslu lestrarfélagsins þar. Gaf hann Minjasafninu á Akureyri síðar verkið. Málverkið er góð heimild um hvernig Akureyri leit út á öðrum áratug síðustu aldar. Einnig vekur athygli á málverkinu íslenski fáninn sem sést vel strengdur á Amtmannshúsinu, en hann stingur nokkuð í stúf við aðra liti í verkinu. Fáninn er viðbót Þorsteins, enda mikill ættjarðarvinur og áhugamaður um Ísland. Árið 1916 voru Íslendingar nýbúnir að eignast sinn þrílita þjóðfána eins og við þekkjum hann í dag.