Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Góð reynsla af símafríi í grunnskólunum

Nýjar símareglur tóku gildi í grunnskólum Akureyrar í ágúst sl. Mynd: Unsplash/frederik-lipfert

Samræmdar símareglur tóku gildi í í grunnskólum Akureyrar í upphafi þessa skólaárs. Nú þegar rúmur mánuðir er liðinn af skólastarfinu lék Akureyri.net forvitni á að vita hvernig gengi að halda skólunum bæjarins símalausum.

Haft var samband við skólastjórnendur í sjö grunnskólum Akureyrarbæjar og þeir spurðir frétta af símafríinu. Heilt yfir var hljóðið í þeim mjög gott og þeir ánægðir með hvernig til hefur tekist. Flestir nemendur fara eftir reglunum, þó einhverjar undantekningar hafi vissulega verið sem taka hefur þurft á. „Reynsla okkar af símafríi er góð, reglunum er framfylgt og það hefur í heild gengið vel þó svo að upp hafi komið að nemendur séu að nota síma sína þá daga sem það er ekki í boði og vissulega höfum við þurft að hafa oftar afskipti af sumum nemendum en öðrum og þá er reynt að leysa úr málum með aðkomu foreldra, segir Jóhanna María Agnarsdóttir, skólastjóri Brekkuskóli.

Mér finnst reynslan almennt góð og flestir fara eftir reglunum. Við sjáum einstaka sinnum nemenda með síma, honum er þá gert að afhenda hann og síminn er þá geymdur þar til í lok dags. En það mátti alveg búast við að þannig færi og að krakkarnir reyndu á mörkin.   

Símar settir í læsta skápa

„Þetta hefur gengið mjög vel. Það eru allir nemendur á unglingastigi sem hafa aðgang að læstum skápum og símarnir fara í þá. Við stjórnendur höfum fengið einn og einn síma til okkar og þá tekur við ákveðið verklag sem við fylgjum og þeir símar hafa ekki komið aftur til okkar,“ segir Ólöf Inga Andrésdóttir, skólastjóri Síðuskóla. „Mér finnst reynslan almennt góð og flestir fara eftir reglunum. Við sjáum einstaka sinnum nemenda með síma, honum er þá gert að afhenda hann og síminn er þá geymdur þar til í lok dags. En það mátti alveg búast við að þannig færi og að krakkarnir reyndu á mörkin,“ segir Anna Bergrós Arnarsdóttir, skólastjóri Oddeyrarskóla. „Að mínu mati hefur þessi innleiðing á símareglunum ekki verið erfið – við höfum lagt okkur öll fram í skólasamfélagi Naustaskóla að takast á við þessa breytingu af jákvæðni. En vissulega hafa komið upp áskoranir og er það eðlilegt þegar verið er að breyta námsumhverfi og venjum nemenda,“ segir Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri Naustaskóla.

Aukið eftirlit vegna símafrísins

„Erfiðast er að sinna allri gæslunni sem þarf til að framfylgja símafríinu. Símafríið kallar á aukið eftirlit bæði á göngum og í stofum þar sem nemendur fá tækifæri til að vera í stofunum í frímínútum og eru þar að spila og spjalla. Stundum er smá ærslagangur og þá þarf að grípa inn í. Einnig er mikill og dýr tækjabúnaður í stofum og því þarf að hafa eftirlitið gott. Það er ánægjulegt að sjá og finna að nemendur eru flestir jákvæðir gagnvart símafríinu og þeir finna sjálfir sína afþreyingu. Á heildina litið erum við sátt við símafríið,“ segir Maríanna Ragnarsdóttir, skólastjóri Lundarskóla. „Það ánægjulegasta við þetta er hvernig nemendur hafa almennt tekið þessu, held að innst inni hafi margir bara verið fegnir,“ segir Tómas Lárus Vilbergsson, deildarstjóri/staðgengill skólastjóra Glerárskóla.

„Það virðist vera meiri ró yfir nemendum og skólastarfi almennt, nemendur snúa sér meira að hvort öðru og spjalla,“ segir Tómas Lárus í Glerárskóla varðandi reynslu af símafríi. Mynd: Unsplash/Koby Kelsey

„Símarnir eru ekki lengur að trufla nemendur í tímum og í samskiptum við aðra nemendur í frímínútum. Áberandi er að nemendur taka sér lengri tíma í matsalnum við að borða og spjalla saman og þar ríkir meiri ró. Ástæðan gæti verið sú að enginn þarf að komast/flýta sér í símann í frímínútum.

Meiri ró yfir nemendum

Aðspurðir hvaða áhrif símafríið hafi haft á skólastarfið eru allir skólastjórnendur sammála um að það sé meiri vinnufriður í kennslustundum nú þegar ekki er truflun frá símunum, samskipti milli nemenda eru jákvæðari og þá hefði stemningin í frímínútunum breyst mjög mikið.

„Það virðist vera meiri ró yfir nemendum og skólastarfi almennt, nemendur snúa sér meira hver að öðrum og spjalla,“ segir Tómas Lárus deildarstjóri/staðgengill skólastjóra Glerárskóla. Undir þetta tekur skólastjóri Oddeyrarskóla sem segir að hennar upplifun sé sú að krakkarnir séu meira að tala saman, fara í íþróttasalinn og spila og spjalla. „Reglurnar hafa verið til bóta fyrir skólastarfið, minni tími fer hjá kennurum í að biðja nemendur um að láta símana niður þannig að kennslustundir eru að nýtast betur á unglingastigi. Þá hefur færst mikið líf í frímínúturnar, nemendur sitja og spjalla og spila og einnig hafa þau verið dugleg að fara út með bolta. Það hefur sannarlega færst líf í húsið við þetta sem er mjög jákvætt,segir Jóhanna, skólastjóri Brekkuskóla.

„Símarnir eru ekki lengur að trufla nemendur í tímum og í samskiptum við aðra nemendur í frímínútum. Áberandi er að nemendur taka sér lengri tíma í matsalnum við að borða og spjalla saman og þar ríkir meiri ró. Ástæðan gæti verið sú að enginn þarf að komast/flýta sér í símann í frímínútum,“ segir Bryndís, skólastjóri Naustaskóla.

„Reglurnar hafa verið til bóta á þann hátt að nú eru nemendur ekki með síma í tímum og fá því síður skilaboð og truflun sem var af símum en er ekki lengur til staðar. Ég fæ færri síma inn á borð til mín en áður, sem að kemur skemmtilega á óvart og segir mér að nemendur og foreldrar séu að virða þessar reglur og finna kannski að þær hafi jákvæð áhrif,“ segir Elías Gunnar Þorbjörnsson, skólastjóri Giljaskóla.

    • Akureyri.net mun fjalla áfram um símafríið, m.a. hvað hefur komið í staðinn fyrir símana og óvæntar áskoranir sem komið hafa upp.