Fara í efni
Héraðsskjalasafnið

Dagbók Baldvins í Höfða á páskum 1899

SÖFNIN OKKAR – XXI
Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Einkaskjöl eru mikilvægar heimildir, ekki síður en opinber skjöl og varpa oft annarri sýn á atburði og líf fólks. Dagbækur fólks eru einmitt mjög gott dæmi um það hvernig einkaskjölin bæta við og segja aðra sögu en þær eru afar ólíkar og bera höfundi sínum vissulega vitni.

Á Héraðsskjalasafninu eru margar og ólíkar dagbækur. Sumar segja lítið annað en hvernig veðrið er þann daginn, hvernig búskapurinn gengur, hverjir komur og fóru o.þ.h. Aðrar segja meira, segja kannski frá skoðunum fólks eða jafnvel hvernig og hvort stórviðburðir í þjóðarsögunni hefur áhrif á hversdagslífið; enn aðrar dagbækur geta verið mikilvægar heimildir um atvinnusögu landsins. Það á einmitt við um dagbækur bræðranna Þórðar og Baldvins Gunnarssona frá Höfða í Grýtubakkahreppi en þeir voru mjög umsvifamiklir í útgerð, verslun og búskap.

Þórður (1865-1935) byrjaði að skrifa dagbók í janúar 1887 en Baldvin (1854-1923) tók við dagbókinni um 1890 og hélt til dauðadags. Þá tók Þórður aftur við dagbókarskrifunum og hélt dagbók fram í mars 1935. Hann lést í maí 1935. Fáir þekkja sögu þeirra bræðra betur en Björn Ingólfsson á Grenivík en hann hjálpaði okkur við að lesa og greina skjal vikunnar, sem er að þessu sinni dagbók Baldvins frá því í aprílbyrjun 1899 en það ár var páskadagur 2. apríl og vetrarlegt eins og núna.

Aprílmánuður 1899

1. L.d.[1] Þver austan rok byljir með skafrenningi. 3°fr B[2]. 27,8 ljótir hríðarbakkar í austurfjöll en bjartur að öðru leyti. Drukkum afmæli Gunnars litla[3], nógu kaffi. Þorsteinn[4] fór heim alfarinn. 

2. S.d. páskadagur dimmur og drungalegur, snjómugga 4°fr B 27,9. Ég fór til kirkju og Þórður með mér, líka fóru Björn og Garðar bróðir[5]. Töfðum lengi hjá lænirinum.[6]

3. M.d. annar páska. Þykkur með þokulofti og snjómyglu 2 °fr B 27,6
Smjör úr Hóli 5½ π [7]
og 2 π fóru í Sund fyrir okkur svo við skuldum 7½ π smjör. Birti og gerði yndælasta verður. Ég rak féð upp í Orra[8], það fékk ½ gjöf. Sá í kíki engan ís af höfðanum. S br[9] kom og fékk 50 π mjöl líka kom hann með Fríðu til að vera hér eitthvað. 

4. Þ.d. a.andi heldur skýjað 1°fr B. 27,4 birti með glaða sólskini og hita 4°h golaði um eftir miðdag en er þá austan á för.

Sauðirnir reknir suður í hólma. Gunnar og Óli fóru með Balda inn á Akureyri og ætluðu að veiða síld um leið eða þá að kaupa hana ef hún fengist ekki í net þeirra.[10] Um kvöldið var Baróm. 27. Við máluðum n.a. herbergið. 

5. M.d. N. andi með snjómyglingi og nærri þýtt B. 27,2 0° var snjókoma allan daginn. Var rekið á hólmana.

6. F.d. Logn drífa talsverð snjókoma svo nú er orðið jarðlaust og því eigi látið út féð. Þeir komu innan að með 600 síldar sem þeir fengu yfir nóttina. Við fórum á handfæri og urðum ekki varir og reyndum þó þvert yfir fjörðinn. Egill[11] fór út hafði ekki séð neinn ís útifyrir. 

_ _ _ _

[1] Laugardagur.

[2] Stendur fyrir barómeter og er átt við loftþrýsting

[3] Gunnar Þórðarson, f.1.4.1893.

[4] Enginn Þorsteinn var heimilisfastur í Höfða um þetta leyti. Sennilega hefur þetta verið Þorsteinn „snikkari“ á Hóli sem hefur verið einhvern tíma í Höfða við að smíða eða dytta að einhverju.

[5] Björn var bróðir Baldvins og Þórðar í Höfða og stóð í öllum framkvæmdum með þeim. Garða br. er að öllum líkindum Gunnar Gunnarsson, elsti bróðir þeirra bræðra en hann bjó í hjáleigunni Görðum og blandaði sér ekkert í stórbúskap hinna.

[6] Læknirinn sem þeir töfðu hjá var Sigurður Jón Hjörleifsson Kvaran. Hann var til heimilis í Höfða tvö ár áður en hann flutti í eigið hús sem hann byggði á Grenivík. Vinskapur mikill var með honum og Höfðabræðrum.

[7] Smjör var mælt í pundum og algengt var að tákna það með pí-merkinu π

[8] Orri er hóll uppi á Höfðanum. Þar hefur verið lítill snjór en örugglega ekki mikil beit.

[9] S br. er Sigurður bróðir, þ.e. Sigurður Gunnarsson. Hann var á þessum tíma nýlega fluttur yfir að Auðbrekku í Hörgárdal. Hafi hann þurft að fara í kaupstað eftir mjöli hefur hann kosið að versla frekar við bræður sína í Kljástrandarverslun en Akureyrarkaupmenn. Fríða er Hallfríður Jakobsdóttir fósturdóttir hans.

[10] Gunnar og Óli eru feðgarnir Gunnar Gunnarsson í Görðum og Ólafur Gunnarsson.

Sá eini Baldi sem kemur til greina er Baldvin Þorleifsson, fimmtugur frændi þeirra í Árbakka. Þeir voru bræðrasynir. Baldi hefur fengið þá feðga til að flytja sig til Akureyrar.

„Þeir fóru með Balda“ getur líka þýtt að þeir hafi farið með honum, sem farþegar. En þá hefðu þeir varla notað ferðina til að veiða síld. Þeir fóru með hann.

[11] Gufuskipið Egill var í áætlanaferðum, flutti m.a. póst og farþega.