Fara í efni
Grunnskólar

Mikill áhugi er á Evrópuleikjum KA

Hvert sæti verður skipað í KA-stúkunni við Greifavöllinn þegar Silkeborg kemur í heimsókn eftir þrjár vikur.

Enn eru um þrjár vikur í heimaleik KA gegn Silkeborg í forkeppni Sambandsdeildar UEFA í knattspyrnu karla en strax er orðið uppselt á leikinn. „Við gætum örugglega selt 3000 miða á leikinn, áhuginn er slíkur,“ sagði Siguróli Magni Sigurðsson íþróttastjóri KA í spjalli við akureyri.net. Miðarnir seldust upp á örfáum klukkustundum í forsölu.

Á Evrópuleikjum sem þessum er einungis heimilt að selja í stúkusæti og segir Siguróli að af þeim sökum komist aðeins tæplega 500 manns á völlinn. „Á heimaleikjunum í deildinni höfum við getað selt 7-800 miða og þá getur fólk staðið við völlinn en á þessum leik eru bara númeruð stúkusæti í boði,“ segir Siguróli. 

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn Sport og segir Siguróli til skoðunar að félagið setji upp einhvers konar umgjörð fyrir áhangendur sem horfa á leikinn í sjónvarpinu. „Okkur dettur örugglega eitthvað skemmtilegt í hug,“ segir hann.

Fyrri viðureign liðanna verður hins vegar í Silkeborg í Danmörku miðvikudaginn 23. júlí. Leikmenn og starfsfólk KA fara með leiguflugi frá Akureyri að morgni 22. júlí og þau 35 sæti sem eftir voru í flugvélinni buðust stuðningsfólki KA á kostakjörum. „Áhuginn var líka gríðarlegur á þessari ferð og við hefðum örugglega getað fyllt þotu,“ segir Siguróli en flogið verður með Bombardier skrúfuvél Icelandair, sem þekktar eru úr innanlandsfluginu. Þetta leiguflug er hins vegar ekki í boði aftur heim en Siguróli segir að margir úr þessum hópi ætli að taka áætlunarflug heim til Íslands frá Billund, líkt og KA-liðið sjálft. Ýmsir aðrir möguleikar séu þó auðvitað í boði og hægt að bæta við dögum í Danmörku að vild. 

Almenn miðasala er hafin á leikinn úti hér á vefsíðu Silkeborg (stofna þarf aðgang á vefinn og velja síðan miða í svæði E2), fyrir þau sem vilja ferðast þangað á eigin vegum. Völlurinn í Silkeborg tekur um 8000 áhorfendur að sögn Siguróla og seldir miðar í svæðið sem áhangendur KA hafa til umráða nálgast núna 100. Reikna má með að einhverjir Íslendingar staddir á þessum slóðum bætist líka í hópinn og Siguróli nefnir líka dönsku tengslin í KA en það eru Danir í leikmannahópi liðsins og þjálfarateymi. „Það verður þéttur og góður hópur KA-stuðningsmanna á leiknum,“ sagði Siguróli að lokum.