Fara í efni
Grunnskólar

Eldurinn vegna fikts með flugelda, ekki kennt í dag

Ljósmynd: Sunneva Lynd Birgisdóttir.

Ekki verður kennt í Glerárskóla í dag. Eldur kviknaði í rusli við skólann seint í gærkvöldi, ekki inni í kjallaranum eins  og talið var í fyrstu, en mikinn reyk lagði inn í skólann og því er skólahald ómögulegt.

Eldurinn kviknaði vegna fikts með flugelda. „Ungmenni gaf sig fram við lögreglu mjög fljótlega og tók þetta á sig. Þetta skýrðist mjög fljótlega, og liggur fyrir hvað gerðist,“ sagði Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni við Akureyri.net í morgun. Um óviljaverk var að ræða að sögn.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað að skólanum um klukkan hálf tólf. Ekki tók langan tíma að slökkva eldinn en mikill reykur var í austustu álmu hússins, elsta hluta skólans. „Það voru töluverðar skemmdir eftir eld og reyk í kjallaranum í rýminu þar sem að eldurinn var en sem betur fer tókst að slökkva þetta áður en þetta barst víðar um skólann. Þannig að þetta er frekar staðbundið,“ segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri í samtali við Vísi í nótt. „Það er spennistöð stutt frá eldsupptökunum, þar er Norðurorka með spennistöð inni í húsinu,“ sagði Ólafur.

Rafmagn fór af stærri hluta bæjarins en upplýsingar frá Norðurorku bentu til í gærkvöldi, að sögn Ólafs. Fram kom hjá Norðurorku að rafmagn hefði farið af norðan Glerár, en það var víðar. „Spennistöðin sló út og fór rafmagnið af stórum hluta bæjarins og þar á meðal á slökkvistöðinni,“ segir Ólafur. Rafmagnið sló út aðeins örskömmu áður en útkallið barst og kom sér illa fyrir slökkviliðið.

„Þá fór sem sagt rafmagnið af allri stöðinni og þar á meðal á hurðunum, þær eru allar rafknúnar hurðarnar sem við notum til að koma bílunum út,“ sagði Ólafur. „Við höfðum svo sem alveg ráð til þess að opna þær en það tekur aðeins lengri tíma og meiri mannafla og tafði útkallið,“ sagði Ólafur við Vísi. „Þetta fór mun betur en á horfðist í fyrstu.“

Eldur í Glerárskóla, rafmagn af Þorpinu