Fara í efni
Golf

Daniel Birkelund þjálfar handboltalið Þórs

Norðmaðurinn Daniel Birkelund, nýráðinn þjálfari handboltaliðs Þórs. Í bakgrunni eru ungir Þórsarar glaðir í bragði eftir að félagið sigraði í næstu efst deild Íslandsmótsins í vor.

Norðmaðurinn Daniel Birkelund hefur verið ráðinn þjálfari handboltaliðs Þórs sem sigraði í næst efstu deild Íslandsmótsins í vor og leikur að nýju í efstu deild næsta vetur. Birkelund skrifaði í dag undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild Þórs.

Birkelund, sem er hálffimmtugur, þjálfaði í vetur danska félagið Lemvig-Thyborøn sem endaði í fjórða sæti næst efstu deildar.  Hann tekur við þjálfarastarfinu af Halldóri Erni Tryggvasyni sem hefur stýrt Þórsliðinu undanfarin ár.

„Daniel er Norðmaður sem hefur þjálfað á hæsta stigi um víða Evrópu undanfarin ár og erum við gríðarlega spenntir að hefja störf með honum. Hann kemur í 100% starf hjá okkur í Þór þar sem hann verður þjálfari meistaraflokks ásamt því að móta stefnu yngri flokka og ýta undir enn meiri uppbyggingu,“ segir í tilkynningu á samfélagsmiðlum Þórs í kvöld.

Birkelund hefur lengi starfað við þjálfun, bæði ungmenna og fullorðinna. Hann var með sænska liðið Skövde áður en hann tók við Lemvig-Thyborøn í Danmörku og þjálfaði í Ungverjalandi um tíma, svo dæmi séu tekin. Einnig hefur Birkelund þjálfað yngri landslið Noregs og starfaði á þeim vettvangi m.a. með Þórsaranum Axel Stefánssyni.

Mynd sem Þórsarar birtu á samfélagsmiðlum sínum í kvöld.