Fara í efni
Gamla íþróttamyndin

Þór/KA-Fram í dag – Hulda og Agnes semja

Agnes Birta Stefánsdóttir, til vinstri, og Hulda Ósk Jónsdóttir hafa báðir samið við Þór/KA til tveggja ára. Myndir: Ármann Hinrik

Þór/KA tekur á móti Fram í dag í 15. umferð Bestu deildar kvenna, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Flautað verður til leiks kl. 17 í Boganum. Þór/KA er í fimmta sæti deildarinnar með 21 stig eftir 14 leiki en Fram í áttunda sæti með 15 stig, einnig eftir 14 leiki.

Þór/KA vann fyrri leik liðanna 3:1 í þar sem Sandra María Jessen gerði tvö mörk og Amalía Árnadóttir eitt. Þór/KA vann FHL í Boganum í síðustu umferð, 4:0, en Fram tapaði 5:2 fyrir Víkingi á heimavelli.

Tilkynnt var í gær að tveir lykilmanna Þórs/KA, Hulda Ósk Jónsdóttir og Agnes Birta Stefánsdóttir, hafi undirritað nýjan samning og verði áfram í herbúðum liðsins næstu tvö árin hið minnsta

Ólíkindatól með boltann

„Hulda Ósk á að baki 258 leiki með Þór/KA í Íslandsmóti, bikarkeppni, deildabikarkeppni, meistarakeppni KSÍ og Meistaradeild Evrópu. Leikirnir í efstu deild eru samanlagt 189, þar af 173 með Þór/KA og 16 með KR,“ segir á vef Þórs/KA.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, er ánægður með að hafa Huldu Ósk áfram í okkar röðum.

„Það er frábært fyrir okkur í Þór/KA að Hulda Ósk skrifi undir nýjan samning. Hulda er einn af þessum leikmönnum sem hefur varðað leið Þór/KA í fjöldamörg ár. Ólíkindatól með boltann og gefur liðinu alltaf einhverja spennandi kosti í sókninni. Gríðarleg reynsla, hæfileikar og frábær karakter sem á klárlega eftir að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum á næstunni,“ segir Jóhann Kristinn um Huldu Ósk.

Klettur í vörninni

„Agnes Birta hefur spilað sem miðvörður mestallan sinn feril í meistaraflokki, en hún spilaði sem miðjumaður í yngri flokkum og fyrstu árin í meistaraflokki. Hún hefur verið í byrjunarliði Þórs/KA í nær öllum leikjum undanfarin ár, klettur í vörninni og hefur stöðvað ófáar hraðar sóknir andstæðinganna með tæklingum á hárréttum augnablikum, ásamt því að bægja hættunni frá þegar andstæðingarnir gera sig líklega inni í teignum hjá Þór/KA. Grjóthörð og gefur ekkert eftir,“ segir á vef Þórs/KA.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, fagnar því að Agnes Birta taki slaginn áfram næstu tvö árin.

„Agnes Birta er jaxl sem gefur aldrei neitt eftir. Það er mjög gott fyrir Þór/KA að hún skrifi undir nýjan samning og við njótum því krafta hennar áfram. Gefur sig alltaf alla í leiki og æfingar og verður bara betri með hverjum deginum. Hún er klárlega ein af þessum stoðum sem eru að styrkjast undir þeirri vegferð sem Þór/KA ætlar sér að feta áfram í átt að settum markmiðum,“ segir þjálfarinn á heimasíðu liðsins.

 

Leikir sem Þór/KA á eftir áður en deildinni verður skipt upp; sex efstu halda áfram baráttu um Íslandsmeistaratitilinn og Evrópusæti en fjögur neðst um áframhaldandi veru í deildinni:

Í dag
Þór/KA  Fram

Laugardag 6. september
Stjarnan - Þór/KA

Föstudag 12. september
Þór/KA - Þróttur

Laugardag 20. september
Breiðablik -  Þór/KA