Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

TF-JMH – Fljúgandi sýningargripur

SÖFNIN OKKAR – 74

Frá Flugsafni Íslands á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Safngripur vikunnar er ekki eiginlegur safngripur, heldur öllu heldur sýningargripur sem enn er í fullri notkun.

Flugvélin TF-JMH á sér ríka og merkilega sögu og sómir sér vel á sýningu Flugsafnsins.

Tryggvi Helgason flugmaður og stofnandi Norðurflugs keypti flugvélina, sem hér er fjallað um, frá Bandaríkjunum árið 1959.

Hún er af gerðinni Piper PA-23-150 Apache og var smíðuð árið 1957. Tryggvi Helgason flugmaður og stofnandi Norðurflugs keypti flugvélina frá Bandaríkjunum árið 1959 og kom hún til Akureyrar 1. nóvember sama ár. Að sögn Sigurðar Aðalsteinssonar flugmanns miðaði Tryggvi upphaf Norðurflugs við þann dag.

TF-JMH var þriðja flugvél Tryggva. Fyrstu flugvélina eignaðist hann með bróður sínum, Jóhanni Magnúsi Helgasyni árið 1955, sjúkraflugvélina TF-LBP sem áður var í eigu Björns Pálssonar. Þremur árum síðar keyptu þeir flugvélina TF-HMH, sem var af gerðinni Cessna 180, til sjúkra- og leiguflugs. Jóhann fórst með þeirri flugvél í Bíldsárskarði 4. janúar 1959.

Hallgrímur Jónsson á kunnuglegum stað. Hann flaug TF-JMH í sjúkra- og síldarleitarflugi þegar hann var starfsmaður Norðurflugs á árunum 1963 til 1965. Nú er hann einn sjö eigenda flugvélarinnar.

Til minningar um bróður sinn gaf Tryggvi Piper Apache vélinni einkennisstafina TF-JMH og báru allar flugvélar Norðurflugs stafina JM ásamt einum staf til viðbótar.

Þegar Tryggvi seldi nokkrum starfsmönnum Norðurflugs flugfélagið árið 1974, sem síðar varð að Flugfélagi Norðurlands, hélt hann eftir TF-JMH.

TF-JMH á Ísafirði. Þarna er hún með „stutta nefið“ en hún var lengd árið 1968.

Árið 1989 eignuðust Hörður Guðlaugsson, Guðmundur Þ. Björnsson og Guðmundur Sigurbergsson flugvélina. Magnús Þorsteinsson eignaðist hana árið 2005 og hefur hún verið á Akureyri síðan. Nú er hún í eigu Magnúsar og sex annarra, þeirra Arngríms B. Jóhannssonar, Guðmundar Hilmarssonar, Hallgríms Jónssonar, Torfa Sigurjónssonar, Þórarins Ágústssonar og Þóris Gunnarssonar.

Síðustu mánuði hefur verið unnið að því gera hana flughæfa og þann 6. maí síðastliðinn hófu þeir Guðmundur Hilmarsson og Hallgrímur Jónsson sig til flugs á þessari fallegu flugvél í blíðskaparviðri.

TF-JMH er sem fyrr segir á sýningu Flugsafnsins og í dag, 15. maí, hefst sumaropnun safnsins. Frá og með deginum í dag er opið alla daga kl. 11-17 til og með 15. september.

Fyrsta flug sumarsins 2025. Flugmennirnir Guðmundur Hilmarsson, til vinstri, og Hallgrímur Jónsson.

Helgi Rafnsson flugvirki hefur unnið að viðhaldi á flugvélinni í vetur.

TF-JMH á flugi á Flugdegi Flugsafnsins 2021.