Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

Breiðablik burt með stigin þrjú – MYNDIR

Tobias Thomsen bjargar á línu þegar Rodri skallaði að marki eftir horn í uppbótartíma. Myndir: Ármann Hinrik

KA tapaði 1:0 fyrir Íslandsmeisturum Breiðabliks í gær, eins og Akureyri.net greindi frá í gærkvöldi. Leikurinn var í 6. umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. KA-menn eru því áfram í neðsta sætinu, eru jafnir FH-ingum með fjögur stig eftir sex leiki, en lakara markahlutfall.

KA hafði fengið á sig 14 mörk í fimm leikjum og því var ekki að undra að uppstilling liðsins bæri þess merki að varnarleikur yrði í fyrirrúmi, amk framan af. Einnig verður að hafa í huga að mótherji dagsins er ríkjandi meistari.

Hans Viktor Guðmundsson, Rodri og Ívar Örn Árnason voru í miðri vörninni, Kári Gautason hægri bakvörður og Guðjón Ernir Hrafnkelsson vinstra megin. Fyrir framan vörnina voru Bjarni Aðalsteinsson, Marcel Römer og Dagur Ingi Valsson og þeir Ásgeir Sigurgeirsson og Viðar Örn Kjartansson framherjar og hinn sívinnandi Ásgeir aðstoðaði miðjumennina einnig í varnarleiknum.

Bjarni Aðalsteinsson, til vinstri, var ódrepandi gegn Blikum í gær; barðist eins og ljón á miðjunni. Eltir þarna Anton Logi Lúðvíksson.

KA-menn áttu afleitan leik gegn ÍA í síðustu umferð en þau batamerki voru á leik liðsins í gær að ekki skorti baráttuviljann. Leikmenn lögðu sig alla fram en gekk hins vegar illa að halda boltanum lengi framan af leik; voru mest í varnarstöðu á meðan Blikar fóru sér að engu óðslega eftir markið. Rúlluðu boltanum á milli sín úti á velli í afar tíðindalitlum fyrri hálfleik.

BLIKAR SKORA SNEMMA
Gestirnir skoruðu strax á 13. mínútu og þegar upp var staðið reyndist það sigurmarkið. Aron Bjarnason skoraði þá með föstu skoti úr miðjum vítateignum; boltinn fór fór framhjá varnarmönnum, undir Steinþór markvörð og í netið. Höskuldur Gunnlaugsson fékk boltann á vinstri kanti eftir stutta hornspyrnu, sendi fyrir markið en KA-menn bægðu hættunni frá, boltinn barst aftur til Höskuldar sem lék inn á teig, var við það að missa jafnvægið en náði að pota boltanum til Arons.


_ _ _

VIÐAR ÖRN Í DAUÐAFÆRI
Í seinni hálfleik lifnaði yfir KA-liðinu en það dugði þó ekki til. KA átti þó að gera a.m.k. eitt mark, þegar Viðar Örn fékk dauðafæri á 60. mínútu. Eftir hraða sókn sendi Guðjón Ernir Hrafnkelsson boltann af vinstri kantinum inn á miðjan vítateig, Viðar náði valdi á boltanum og skaut en Anton Ari varði gríðarlega vel. Þess verður þó að geta að skot Viðars var ekki fast, sem gerði markverðinum auðveldara fyrir en ella.


_ _ _

TÆKIFÆRI – VÍTI?
Hallgrímur Mar Steingrímsson og Jóan Símun Edmundsson voru settir á bekkinn eftir slaka frammistöðu gegn ÍA á Skaganum í síðustu umferð, svo og Hrannar Björn Steingrímsson. Tveir þeir fyrrnefndu komu inn á þegar 63 mín. voru liðnar og það hleypti meira lífi í sóknarleik KA þótt þeir næðu ekki sjálfir beinlínis að skapa mikla hættu. Jóan skallaði reyndar yfir eftir góða fyrirgjöf Kára og skaut langt yfir af löngu færi.

Blikar ógnuðu líka; Steinþór varði mjög vel fast skot Viktors Karls utan vítateigs og markaskorarinn Aron fékk boltann á ákjósanlegum stað eftir sendingu Viktors Karls en náði ekki skoti.

Þá vildu KA-menn fá víti þegar korter var eftir en stóra spurningin er: Hvor sparkar í hvorn? Ásgeir Sigurgeirsson ætlaði að taka boltann á lofti og skjóta að marki en ekki er annað sjá á sjónvarpsupptöku en varnarmaður nái að pota í boltann sekúndubroti áður en þeir lenda saman. Ákvörðun dómarans virðist því rétt – að flauta ekki.

BLIKAR BJARGA Á LÍNU
Tobias Thomsen framherji Breiðabliks bjargaði á línu þegar komið var í uppbótartíma. Eftir hornspyrnu skallaði Rodri að marki en Thomsen var á sínum stað á marklínunni og skallaði boltann frá. Hættan var því ekki ýkja mikil í raun, eins og sjá má á myndunum. Þegar boltinn datt niður í markteiginn skapaðist hins vegar mikil hætta en á endanum var dæmd rangstaða.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

  • Næsti leikur KA er á fimmtudaginn, gegn Fram í bikarkeppni KSÍ, Mjólkurbikarnum. Liðin mætast á Greifavelli KA og hefst leikurinn kl. 18.00. KA er ríkjandi bikarmeistari sem kunnugt er.
  • Næsti deildarleikur KA verður gegn ÍBV í Vestmanneyjum næstkomandi sunnudag, 18. maí. Hann hefst kl. 14.00.