Fara í efni
Frjálsíþróttir

Íslandsmet og farseðill á HM

Baldvin Þór Magnússon á Akureyri í fyrrasumar þegar hann tók þátt í Meistaramóti Íslands. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Baldvin Þór Magnússon úr Ungmennafélagi Akureyrar setti Íslandsmet í 3.000 metra hlaupi innanhúss á móti í Bandaríkjunum í gærkvöldi og náði þar með lágmarki fyrir heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum innanhúss sem fram fer í Belgrad í Serbíu í mars. Baldvin hljóp á 7:47,51 mín. Baldvin átti sjálfur fyrra metið – 7:53,92 mín. sem hann setti á lokamóti bandarísku háskólamótaraðarinnar fyrir sléttu ári, í febrúar 2021.

mbl.is segir í morgun að Baldvin hafi með þessu nýja Íslandsmeti bætt skólamet Eastern Michigan háskólans, sem hann hleypur fyrir, og orðið fimmti á mótinu. Tíminn er sá 17. besti á árinu í háskólahlaupum í Bandaríkjunum að sögn mbl.is.