Enn framkvæmdir á Borgum vegna myglu

Framkvæmdir standa enn yfir vegna myglu á Borgum, rannsóknarhúsinu á lóð Háskólans á Akureyri. Um þessar mundir er verið að skipta um gólfefni innanhúss en starfsemi í öllu húsinu hefur orðið fyrir raski vegna framkvæmdanna. Búist er við því að framkvæmdum ljúki í nóvember.
Eins og Akureyri.net hefur áður sagt frá greindist mygla í húsnæði Fiskistofu á Borgum vorið 2024 og þurfti eigandi hússins, fasteignafélagið Reitir að leggjast í miklar framkvæmdir á húsnæðinu, bæði utan- og innanhúss vegna þessa.
Byggingarefni, verkfæri og rusl á göngunum á Borgum. Framkvæmdir þar eru í fullum gangi en mygla kom upphaflega upp í húsnæði Fiskistofu árið 2024. Reitir segjast hafa í einu og öllu fylgt ráðleggingum fagaðila við greiningu og úrbætur á húsnæðinu og gengið lengra en tillögur ráðgjafa í mörgum tilfellum.
Skipt um allt gólfefni við útvegg
Í vor kom síðan í ljós að ráðast þyrfti í meiri framkvæmdir en upphaflega var talið nauðsynlegt. „Í byrjun árs fóru Reitir í frekari kortlagningu á húsnæðinu að ósk leigutaka. Mygla kom fram í hluta sýna við útveggi og eitt sýni á miðju gólfi reyndist lítillega myglað. Því var ákveðið að fjarlægja allan dúk við útveggi og 1,5 metra inn á gólf óháð niðurstöðum sýna. Samhliða framkvæmdum innandyra hafa Reitir unnið að því að laga ytra byrði hússins. Þeim framkvæmdum er að mestu lokið og rakamælingar á staðnum sýna að framkvæmdirnar hafa skilað tilætluðum árangri,“ segir Lára Hilmarsdóttir, samskiptastjóri Reita.
Þessi mynd er úr starfsstöð Matís en á henni sést hvernig gólfdúkurinn hefur verið fjarðlægður við útvegg.
Leigutökum boðin aðstaða í miðbænum
Framkvæmdirnar hafa haft áhrif á starfsemi á öllum hæðum hússins og hafa starfsmenn þurft að flytja sig í annað húsnæði á meðan á vinnu stendur. Háskólinn á Akureyri leigir stóran hluta hússins en eins er þar að finna stofnanir á borð við MATÍS, Fiskistofu, Náttúrufræðistofnun Íslands, Minjastofnun Íslands, Jafnréttisstofu og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Eins og staðan er núna er fátt fólk að vinna á Borgum, ef frá er talin starfsstöð Fiskistofu og Verðlagsstofu skiptaverðs, en framkvæmdir í þeirra rými kláruðust í fyrra. Þá er starfsfólk Jafnréttisstofu enn í húsinu en framkvæmdir eru ekki hafnar í þeirra rými. „Til þess að mæta ónæði sem leigutakar hafa orðið fyrir höfum við boðið þeim upp á aðstöðu í Hafnarstræti 91-95 og erum að auka það rými sem er til afnota fyrir fólk sem starfar á Norðurslóð,“ segir Lára.
Andyrið á Borgum.
Verklokum seinkar fram í nóvember
Í vor var vonast til þess að framkvæmdir myndu klárast í húsinu fyrir skólabyrjun í haust en seinkanir hafa orðið á verkinu og eins og áður segir er nú vonast til að framkvæmdum ljúki í nóvember. Segir Lára að frá því að verkefnið hófst á síðasta ári hafi Reitir haldið vikulega fundi með fólki í húsnæðinu. Yfir sumartímann varð hlé á þessum fundum en vikulegir fundir fóru aftur af stað síðsumars og þar að auki deila Reitir upplýsingum um stöðu framkvæmda með leigutökum vikulega. Þá ítrekar Lára að Reitir hafa í einu og öllu fylgt ráðleggingum fagaðila við greiningu og úrbætur í húsnæðinu, og gengið lengra en tillögur ráðgjafa í mörgum tilfellum.
- NÁNARI UMFJÖLLUN Á MORGUN UM ÁSTANDIÐ Á BORGUM
Borgir eru á háskólasvæðinu. Háskólinn er með starfsemi í húsinu en eins eru þar starfsstöðvar fjölda stofnana.