Samþykkja 2-3 hæðir að Naustagötu 13

Skipulagsráð Akureyrar vill heimila tveggja til þriggja hæða byggingar, auk kjallara, á lóðinni Naustagötu 13. Ráðið samþykkti samhljóða á síðasta fundi að leggja til við bæjarstjórn að tillaga að breytingu á aðalskipulagi sem nær til lóðarinnar verði auglýst með þeirri breytingu. Krafa er um að á lóðinni verði að lágmarki um 1.000 fermetra verslunar- og þjónustustarfsemi en heimild til að nýta efri hæðir undir íbúðir.
Lóðarhafi er byggingarfélagið Bergfesta og þar á bæ eru menn himinlifandi með að vera búnir að ná þessum áfanga. Bergfesta bindur vonir við að bæjarstjórn samþykki tillögu skipulagsráðs. Fyrst og fremst telji þeir niðurstöðuna sigur fyrir íbúa og fyrsta skrefið varðandi verslun og þjónustu verði að kanna áhuga rekstraraðila matvöruverslana. Þeir vilji láta á það reyna hvort hægt sé að koma fyrir stórri og flottri matvöruveslun í húsnæðinu, slíkt skipti íbúa hverfisins miklu máli.
Hugmyndir eru um svokallaðan lífsgæðakjarna, og einnig hefðbundna íbúabyggð, í næsta nágrenni við Naustagötu 13 – vestan Kjarnagötu; lífsgæðakjarnann nyrst á óbyggða svæðinu og frekari byggð suður undir Wilhelmínugötu, syðstu götu Hagahverfis. Líklegt má telja að af þeim hugmyndum verði og Bergfesta telur það styrkja rekstrargrundvöll verslunar í fyrirhuguðu húsi.
Örin bendir á lóðina sem um ræðir, Naustagötu 13, á milli Naustahverfis og Hagahverfis.
Á kynningartíma umræddrar tillögu að breytingu á aðalskipulagi bárust umsagnir frá Minjastofnun, umhverfis- og mannvirkjasviði og Norðurorku. „Þá bárust samhljóða athugasemdir frá íbúum í Davíðshaga 2 og 4, Kjarnagötu 51 og Kjarnagötu 45. Innkomnar athugasemdir og umsagnir eiga bæði við um breytingu á aðal- og deiliskipulagi,“ segir í fundargerð skipulagsráðs.
Lóðarhafi, byggingarfélagið Bergfesta, hefur lengi unnið að tillögum varðandi Naustagötu 13. Fyrr árinu varpaði félagið fram hugmynd sem vakti mikla athygli; að heilsugæslustöð, sem lengi hafði verið í umræðu, yrði á tveimur efri hæðum byggingar á lóðinni en ekkert verður af því. Stutt er síðan Heilbrigðisstofnun Norðurlands tilkynnti að byggingu annarar heilsugæslustöðvar, í syðri hluta bæjarins, yrði frestað um fimm ár hið minnsta.
Tillaga skipulagsráðs verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í dag.
Vert er að geta þess að á nefndum fundi skipulagsráðs lét Sindri S. Kristjánsson, fulltrúi Samfylkingarinnar, bóka eftirfarandi:
„Vegna fyrri bókana minna í þessu máli vil ég taka eftirfarandi fram. Að þessu sinni er aðeins verið að kveða á um breytingu á aðalskipulagi svæðisins. Sú tillaga sem liggur fyrir er talsvert breytt frá fyrri stigum málsins og ágæt að því leyti. Tillagan kemur nú til móts við athugasemdir íbúa sem fram komu á fyrri stigum að einhverju leyti, m.a. með að skilgreina leyfilega hámarkshæð bygginga. Ég fagna líka að sú leið sé nú valin að breyta aðalskipulagi fyrst og skapa þannig almennan ramma fyrir lóðarhafa að vinna eftir í deiliskipulagsvinnu.“