Fara í efni
Fiskidagurinn mikli á Dalvík

Stækkun Jaðarsvallar aðkallandi innan tíðar

Rauðu línurnar eru dregnar utan um svæðið suðvestan við Jaðarsvöll þar sem meiningin var að útbúa nýjar golfbrautir með tíð og tíma. Lengst til vinstri, rétt ofan við miðja mynd, er hesthúsahverfið Breiðholt. Mynd: Þorgeir Baldursson

Eins og fram kom í viðtali á akureyri.net í gær við Steindór Kr. Ragnarsson, framkvæmdastjóra og vallarstjóra Golfklúbbs Akureyrar, hefur orðið mikil aukning á öllum sviðum í starfsemi klúbbsins á síðustu misserum. Og ef meðlimum klúbbsins heldur áfram að fjölga á sama hraða styttist í að klúbburinn anni ekki fjöldanum og þurfi að grípa til fjöldatakmarkana. Stækkun Jaðarsvallar er í kortunum en ljóst er að einhver ár eru í að hún verði að veruleika.

Undanfarinn tæpan áratug hefur öll jarðvegslosun sem fallið hefur til á Akureyri vegna nýbygginga og annarra framkvæmda farið fram á svæði sem er suðvestan við golfvöllinn á Jaðri. Á þessu svæði var meiningin að útbúa nýjar golfbrautir með tíð og tíma. Steindór segir að gert hafi verið ráð fyrir að þetta svæði yrði notað til jarðvegslosunar fram til ársins 2030 eða svo og þá yrði hægt að hefjast handa við að móta landið undir golfvöll. Hann segir að ekki standi til að klúbburinn fari af stað sjálfur í jarðvegsflutninga til að flýta fyrir verkinu.

Nýr völlur gæti kostað 450 milljónir

Eftir að jarðvegslosun er lokið segir Steindór að taki 2 ár að útbúa golfvöll og gera hann kláran. Á sínum tíma hafi verið hannaðar 6 holur á þessu svæði og hægt er að sjá þær tillöguteikningar hér í fréttinni. „Svo bara kemur það í ljós þegar þar að kemur hvernig endanleg útfærsla verður. Kannski breytum við þessu skipulagi eitthvað, því auðvitað viljum við ná 9 holu lykkju þarna til viðbótar við 18 holurnar,“ segir Steindór.

Miðað við upphaflegu áætlanirnar má gera ráð fyrir að viðbótin komist ekki í gagnið fyrr en eftir 7-8 ár en aukningin í golfiðkun í bænum hefur verið slík að stækkun vallarins þolir varla svo langa bið. Steindór tekur undir það. „Við þurfum að fara að byrja. Mögulega verður farið að kroppa í þessa hugmynd mun fyrr en áætlað var, þróunin í golfinu hefur verið svo hröð,“ segir Steindór. Hann segir að nýr völlur gæti kostað um 400-450 milljónir og líkt og með önnur íþróttamannvirki í bænum er það á hendi Akureyrarbæjar að standa að framkvæmdinni. Steindór bendir á að auðvitað þurfi að forgangsraða slíkum framkvæmdum hjá bænum en þetta séu auðvitað smámunir miðað við þá peninga sem hafa farið í mannvirki fyrir boltaíþróttir. „En það ætti ekki að vera stórmál fyrir bæinn að koma þessu að, hvenær sem það verður,“ segir Steindór.

Ef tekst að koma 9 viðbótarholum á nýja svæðið yrði það bylting fyrir klúbbinn og eykur verulega möguleika hans á að veita meðlimum þjónustu við hæfi. Steindór nefnir sem dæmi að þá væri mögulegt að bjóða upp á mismunandi form félagsaðildar. Annars vegar þessa hefðbundnu aðild og hins vegar aðild að 9 holu velli. Slíkur sveigjanleiki henti mjög mörgum félagsmönnum, auk þess sem betur væri hægt að stýra álagi og taka áfram á móti gestum sem hafa verið duglegir að koma í heimsókn og spila á Jaðarsvelli.