Fara í efni
Fimleikar

Þórsliðið átti aldrei möguleika gegn Fram

Brynjar Hólm Grétarsson lætur vaða að marki Fram í gær. Hafþór Vignisson sést í fjarska vinstra megin og inni á línunni er Þórður Tandri Ágústsson. Myndir: Ármann Hinrik

Þórsarar sáu aldrei til sólar þegar Íslandsmeistarar Fram sóttu þá heim í gær í Olísdeildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þegar flautað var til leiksloka munaði 14 mörkum á liðunum: Fram vann 34:20. Staðan í hálfleik var 17:11.

Það var aðeins í blábyrjun sem jafnræði var með liðunum; Þórsarar voru 2:1 yfir þegar tæpar sex mínútur voru búnar en Framarar gerðu þá fjögur mörk í röð og þá virtist því miður strax ljóst í hvað stefndi. Vandræðagangur í sókninni hjá Þór gerði það að verkum að gestirnir fengu hvert hraðaupphlaupið af öðru í leiknum og uppstilltur varnarleikur var líka langt frá því sannfærandi, ekki síst þegar leið á.

Frammistaðan í gær hlýtur að vera sú slakasta hjá Þór í vetur. Liðið náði einstaka góðum köflum, bæði í vörn og sókn, en allir voru þeir stuttir og dugðu skammt. Þórsarar hafa sýnt afbragðs frammistöðu í sumum leikja vetrarins en þreyta virðist farin að hrjá máttarstólpa eins og Brynjar Hólm og Odd Gretarsson, sem hafa borið liðið á herðum sér ásamt fáeinum öðrum. Liðið má ekki við því að helstu leikmenn þess séu ekki upp á sitt besta, aðrir náðu a.mk. ekki að taka við keflinu í gær og ekki hafa sjálfstraust til þess. Markvörðurinn Nikola Radovanovic náði sér ekki á strik frekar en aðrir; byrjaði reyndar vel og varði fjögur skot á fyrstu fimm mínútum leiksins en aðeins átta alls. Patrekur Guðni Þorbergsson lék mun skemur en varði fimm skot.

Þórsarar sækja Valsmenn heim á miðvikudaginn og taka síðan á móti Eyjamönnum næsta sunnudag en eftir það tekur við langt jóla- og heimsmeistaramótsfrí. Þórsliðið er í næst neðsta deildarinnar með sjö stig að loknum 13 leikjum, einu minna en HK, tveimur stigum minna en Selfoss og þremur stigum á eftir Stjörnunni. ÍR er neðst með fimm stig.

Hlutskipti nýliða er aldrei auðvelt í deildinni en mikið er eftir og ekki ástæða til að hengja haus; róa verður að því öllum árum að liðið haldi sér í deildinni og vonandi tekst Þórsurum að stilla saman strengi og hlaða batterín áður en baráttan hefst á ný í byrjun febrúar.

Kári Kristján Kristjánsson sem skorar hér í gær, var markahæstur Þórsara gegn Fram ásamt Hafþóri Má Vignssyni, þeir gerðu fjögur mörk hvor. 

Mörk Þórs: Hafþór Már Vignisson 4, Kári Kristján Kristjánsson 4, Þórður Tandri Ágústsson 3, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Halldór Kristinn Harðarson 3, Jón Ólafur Þorsteinsson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1 og Guðmundur Hlífar Jóhannesson 1.

Varin skot: Nikola Radovanovic 8, Patrekur Guðni Þorbergsson 5 (þar af 1 víti).

Mörk Fram: Eiður Rafn Valsson 8, Max Emil Stenlund 5, Dánjal Ragnarsson 4, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 3, Erlendur Guðmundsson 3, Ívar Logi Styrmisson 3, Arnar Snær Magnússon 2, Theodór Sigurðsson 2, Viktor Sigurðsson 1, Dagur Fannar Möller 1, Kristófer Tómas Gíslason 1 og Tindur Ingófsson 1.

Varin skot: Breki Hrafn Árnason 15, Arnór Máni Daðason 2.

Staðan í deildinni og leikjadagskrá