Sanngjarn sigur SA í byrjun Ofurhelgarinnar
SA Víkingar unnu sanngjarnan sigur á Fjölni í baráttuleik við upphaf annarrar Ofurhelgi Íshokkísambands Íslands þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöld. Lokatölur urðu 5-3 og SA endurheimti efsta sæti deildarinnar þar sem SR-ingar höfðu tyllt sér tímabundið í upphafi árs.
SA Víkingar voru sterkari í upphafi, hófu leikinn af krafti, skoruðu strax á fyrstu mínútu og áttu til dæmis 13 skot í fyrstu lotunni á móti tveimur skotum Fjölnis. Leikurinn jafnaðist þó í annarri lotunni. Snemma í annarri lotu minnkuðu gestirnir muninn og jöfnuðu síðan í 2-2 stuttu síðar. Heimamenn náðu aftur forystunni um miðja aðra lotuna þegar Hank Nagel skoraði sitt annað mark. Aftur náðu Fjölnismenn að jafna, en þeir voru ekki lengi í þeirri paradís því aðeins 14 sekúndum eftir að leikur hófst að nýju náði Orri Blöndal aftur forystunni fyrir SA. Fimm marka lota og allt opið.

SA Víkingar fagna fimmta marki liðsins. Meðalaldur leikmanna sem voru á ís þegar Pétur Sigurðsson skoraði var ekki hár. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.
Þriðja lotan einkenndist af baráttu, en mörkin urðu ekki eins mörg og í annarri lotunni. Það var ekki fyr en rúmar sjö mínútur voru eftir að fyrsta og eina markið í þriðju lotunni leit dagsins ljós þegar Pétur Sigurðsson hirti frákast eftir skot Mareks Vybostok. Þessi tveggja marka foryrsta dugði því þrátt fyrir fjölmargar tilraunir tókst hvorugu liðinu að bæta við marki enda hentu varnarmenn sér fyrir skotin og þau sem rötuðu á mörkin enduðu í höndum eða hlífum markvarðanna. Eins og í fyrstu lotunni voru það heimamenn í SA sem voru aðgangsharðari og áttu 15 skot á markið á móti fimm skotum gestanna, samtals 44 skot á móti 19 í leiknum öllum.
SA - Fjölnir 5-3 (2-0, 2-3, 1-0)
- 1-0 - Hank Nagel (0:26). Stoðsendingar: Andri Már Mikaelsson, Arnar Kristjánsson.
SA Víkingar hófu leikinn með látum og eftir aðeins 26 sekúndur kom fyrsta mark þessarar ofurhelgi. Pökkurinn barst þá út að sóknarlínunni eftir marktilraunir þeirra rauðu og þar var Hank Nagel mættur og smellhitti pökkinn svo hann söng í netinu. - 2-0 - Matthías Már Stefánsson (5:11). Stoðsending: Heiðar Gauti Jóhannsson.
Heimamenn voru mun aðgangsharðari frá upphafi og tæpum fimm mínútum eftir fyrsta markið skoraði Matthías Már Stefánsson og kom SA Víkingum í 2-0 eftir að Heiðar Gauti hafði unnið pökkinn af varnarmanni Fjölnis.
- - - - 2-1 - Jere Koikkalainen (22:08). Stoðsendingar: Sturla Snorrason, Baldur Mortensen.
Snemma í annarri lotu minnkaði Jere Koikkalainen muninn með fyrsta marki Fjölnis. - 2-2 - Falur Guðnason (25:49).
Annað mark Fjölnis mætti jafnvel teljast slysalegt, ótruflað skot frá Fal utan af vinstri kanti og einhvern veginn smaug pökkurinn framhjá markverði SA. Gestirnir búnir að jafna þrátt fyrir nokkra yfirburði SA í fyrstu lotunni. - 3-2 - Hank Nagel (29:45). Stoðsending: Arnar Kristjánsson
Hank Nagel náði aftur forystunni fyrir SA með sínu öðru marki. SA Víkingar voru þá einum fleiri, spiluðu sín á milli fyrir utan og Hank með skot sem virtist breyta um stefnu af leikmanni og sveif í markið. - 3-3 - Hilmar Sverrisson (35:11). Stoðsending: Pétur Egilsson
Aftur náðu gestirnir að jafna, í þetta sinn eftir að Hilmar Sverrisson hafði af harðfylgi komist framhjá varnarmönnum SA og skoraði af stuttu færi. - 4-3 - Orri Blöndal (35:25). Stoðsending: Bjarmi Kristjánsson.
Það tók heimamenn ekki nema 14 sekúndur að svara jöfnunarmarki gestanna. Orri Blöndal náði þá frákastinu eftir að Bjarmi hafði átt skot að marki.
- - - - 5-3 - Pétur Sigurðsson (52:23). Stoðsending: Marek Vybostok.
Þriðja lotan var rúmlega hálfnuð þegar SA náði loks tveggja marka forystu á ný þegar Pétur hirti frákast vinstra megin eftir skot Mareks og skoraði af stuttu færi.
SA
Mörk/stoðsendingar: Hank Nagel 2/0, Matthías Már Stefánsson 1/0, Orri Blöndal 1/0, Pétur Sigurðsson 1/0, Andri Már Mikaelsson 0/1, Arnar Kristjánsson 0/2, Heiðar Gauti Jóhannsson 0/1, Bjarmi Kristjánsson 0/1, Marek Vybostok 0/1.
Varin skot: Jakob Jóhannesson 16 af 19 (84,2%).
Refsingar: 4 mínútur.
Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Jere Koikkalainen 1/0, Falur Guðnason 1/0, Hilmar Sverrisson 1/0, Sturla Snorrason 0/1, Baldur Mortensen 0/1, Pétur Egilsson 0/1.
Varin skot: Tuomas Heikkonen 39 af 44 (88,6%).
Refsingar: 6 mínútur.

Hinn finnski markvörður Fjölnis, Tuomas Heikkonen, hafði nóg að gera í markinu, en hann varði 39 skot af 44 sem komu á markið. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.
Sanngjarn sigur SA Víkinga að lokum eftir hörkuleik. Fjölnismenn fá tæpan sólarhring í hvíld áður en þeir mæta hinu Reykjavíkurliðinu, SR, í Skautahöllinni á Akureyri kl. 16:45 í dag. Leikur gærdagsins var nefnilega sá fyrsti af þremur í Ofurhelgi Íshokkísambandsins, en lokaleikur helgarinnar verður á milli SA og SR á sunnudag kl. 16:45.
SA endurheimti toppsætið af SR-ingum með sigrinum í kvöld. SA er með 19 stig eftir níu leiki, SR með 17 stig eftir níu leiki, en Fjölnir með þrjú stig úr átta leikjum.