Fara í efni
Fimleikar

Jóhann Gunnar og Gísli Már fengu brons á EM

Jóhann Gunnar Finnsson og Gísli Már Þórðarson alsælir með bronsverðlaunin. Mynd af vef Fimleikafélags Akureyrar.

Tveir strákar úr Fimleikafélagi Akureyrar (FIMAK), Jóhann Gunnar Finnsson, 17 ára, og Gísli Már Þórðarson, 16 ára, voru í blönduðu unglingalandsliði Íslands sem lenti í þriðja sæti á Evrópumótinu í hópfimleikum í Portúgal á dögunum. Þeir komu því heim með bronsverðlaun í farteskinu.

„Báðir drengirnir eru í skýjunum með upplifunina og bronsið,“ segir á heimasíðu FIMAK.  „Skemmtilegasta félagslíf sem ég hef komist í og frábær upplifun af stórmóti,“ er þar haft eftir Gísla. „Ekkert eðlilega gaman,“ bætir Jóhann við. 

Skólarnir sýna mikinn skilning

Strákarnir, sem stunda báðir nám á Akureyri, hafa staðið í ströngu við undirbúning fyrir Evrópumótið en hafa mætt miklum skilningi hjá MA og VMA. Landsliðshópurinn var valinn í lok júní. Á heimasíðu FIMAK segir: 

„Þeir hafa æft stíft síðan þá, og dvalið tölvert mikið fyrir sunnan. Þeir voru í æfingabúðum á Akranesi síðastliðið sumar. Í september og október voru langar æfingahelgar hjá strákunum fyrir sunnan. Þeir þurftu svo undir það síðasta að dvelja eingöngu fyrir sunnan, þar sem æft var fimm sinnum í viku, þrjár klukkustundir í senn. Jóhann stundar nám við raungreinabraut MA. Hann hefur þurft að stunda nám sitt í fjarnámi síðan í október. Báðir hafa mætt miklum skilningi hjá skólunum sínum, en Jóhann hefur tekið próf í Verslunarskólanum. Gísli Már er nemandi í VMA á vélstjórnarbraut og hefur honum alltaf tekist að mæta í verklegu hlutana, þrátt fyrir mikið æfingaálag, og þess utan verið duglegur að læra fyrir sunnan.“

Byrjaði mjög ungir

„Báðir eiga langan feril í áhaldafimleikum að baki lengst af undir stjórn þjálfarans Jan Bogodoi. Jóhann byrjaði rúmlega þriggja ára og Gísli fimm ára og þeir skiptu yfir í hópfimleika á þessu ári og æfðu undir stjórn Erlu Ormarsdóttir, skömmu síðar voru þeir valdir í landsliðið sem er hreint ótrúlega flottur árangur hjá þeim,“ segir á heimasíðu FIMAK. Þar segir að Evrópumótið var fyrsta hópfimleikamótið sem strákarnir tóku þátt í!

„Til gamans má geta að með þeim í landsliðinu er Hrafnhildur Tinna Brynjólfsdóttir sem hóf sinn fimleikaferil í áhaldafimleikum hjá FIMAK en skipti yfir í hópfimleika eftir að fjölskyldan fluttist til Danmerkur. Ekki má svo gleyma Evrópumeisturunum í kvennaliðum. Þar eigum við dálítið í Andreu Hansen sem æfði lengst af hjá FIMAK í áhaldafimleikum en skipti svo yfir í hópfimleika. Hún fluttist svo suður um 16 ára aldur til að geta stundað stífari æfingar í fimleikum sem hefur svo sannarlega skilað henni þeim árangri sem hún er að skila í dag.

Fimleikafélag Akureyrar er einstaklega stolt af strákunum og óskar þeim og öllum iðkendum sem fóru á mótið innilega til hamingju.“

Heimasíða Fimleikafélags Akureyrar

Instagramsíða unglingalandsliðsins