Fara í efni
Ferðaþjónusta

Hótel Gjá fjármagnað af Íslandsbanka

Fjármögnun klár! Fulltrúar hluthafa og stjórnarmanna Skógarbaðanna komu saman í dag, ásamt starfsfólki Íslandsbanka, þar sem hótelið mun rísa. Í fjarska er lækur sem mun renna í gegnum móttöku hótelsins. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsbanki hefur veitt Skógarböðunum framkvæmdalán til fjármögnunar á 120 herbergja hóteli með heilsulind, veitingaaðstöðu og ráðstefnusal. Hótelið verður nefnt Gjá og gert er ráð fyrir að verklok verði á árinu 2027. Þá verða ársstörf við Skógarböðin orðin um 120.

„Rekstur Skógarbaðanna hefur gengið vel frá opnun og er tilkoma þeirra mikið framfara skref fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Margt heimafólk hefur keypt vetrarkort í böðin og hefur aðsókn heimafólks verið ein helsta forsenda velgengni baðanna,“ segir í tilkynningu um fjármögnunina. „Nú er í fyrsta skiptið boðið upp á árskort í böðin en talsvert hefur verið óskað eftir slíku af heimafólki. Allir hluthafar koma frá svæðinu hér á Akureyri og hafa sterka tengingu við það og vilja stuðla að frekari uppbyggingu þess. “

Ekki er áætlað að greiða út arð úr rekstri Skógarbaða næstu árin heldur á arðsemi rekstursins að renna inn í nýtt hótelverkefni.

„Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að fylgjast með uppbyggingu Skógarbaðanna sem hafa stutt við kröftuga ferðaþjónustu á Norðurlandi,“ segir Jón Birgir Guðmundsson útibússtjóri Íslandsbanka á Akureyri. „Með byggingu á glæsilegu hóteli við Skógarböðin eru enn frekari skref stigin í því að gera Norðurlandið að spennandi áfangastað. Íslandsbanki vill vera hreyfiafl til góðra verka og er þetta verkefni gott dæmi um það en bankinn hefur verið þátttakandi í vegferð Skógarbaðanna frá upphafi. Samstarfið hefur verið mjög gott og eigendur og stjórnendur eiga mikið hrós skilið fyrir framkvæmd verkefnisins. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs,“ segir Jón Birgir.