Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Öflugir Þórsarar komnir á toppinn

Varnarjaxlinn Yann Emmanuel Affi sló taktinn þegar leikmenn Þórs fögnuðu sigrinum og því að vera komnir á toppinn, ásamt líflegum stuðningsmönnum liðsins í Boganum í dag. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar eru komnir í efsta sæti Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, eftir 3:1 sigur á Njarðvíkingum í Boganum í dag. Sigfús Fannar Gunnarsson, Rafael Victor og Ingimar Arnar Kristjánsson gerðu mörk Þórs, sem komst í 3:0 áður en gestirnir minnkuðu muninn á lokasekúndunum.

Lið Njarðvíkur var á toppnum í morgun en féll niður í þriðja sæti við tapið því Þróttur vann Selfoss 2:1 og Þróttarar eru nú öðru sæti. 

Mjög góður bragur var á Þórsliðinu í dag. Þetta var fimmti sigur Þórs í röð og sjöundi sigurinn í síðustu átta leikjum. Einn endaði með jafntefli og Þórsarar hafa ekki tapað í deildinni síðan 3. júlí. Þór hefur 39 stig, Þróttur 38 og Njarðvík 37. Síðan koma HK og ÍR með 34.

Mjölnismenn – stór hópur stuðningsmanna Þórs – héldu uppi frábærri stemningu allan leikinn. Hér fagna þeir ásamt leikmönnum liðsins eftir að Rafael Victor kom Þór í 2:0 þegar tæplega hálftími var liðinn.

Efsta liðið að loknum 22 umferðum fer beint upp í efstu deild, Bestu deildina, eins og áður hefur verið nefnt en næstu fjögur fara í umspil um annað laust sæti í hópi þeirra besta.

Önnur úrslit í dag:

  • Grindavík - Fylkir 0:4
  • Leiknir - ÍR 1:1
  • Fjölnir - HK 1:5
  • Þróttur - Selfoss 2:1
  • Keflavík - Völsungur 7:2

Þrjár umferðir eru eftir og níu stig í pottinum þannig að allt getur gerst. Leikir sem efstu liðin eiga eftir:

  • Þór 39 stig – Selfoss (úti), Fjölnir (heima), Þróttur (úti)
  • Þróttur 38 stig – Fjölnir (ú), HK (ú), Þór (h)
  • Njarðvík 37 stig – Leiknir (h), Keflavík (ú), Grindavík (h)
  • HK 34 stig – Fylkir (h), Þróttur (h), Völsungur (ú)
  • ÍR 34 stig – Keflavík (h), Grindavík (ú), Fylkir (h)
  • Keflavík 31 stig – ÍR (ú), Njarðvík (h), Selfoss (ú)

Sigurinn í höfn! Yann Affi, lengst til vinstri, réð sér ekki fyrir kæti eftir að Ingimar Arnar Kristjánsson (23) gerði þriðja mark Þórs á 72. mínútu leiksins. Þá var nánast öruggt að stigin þrjú yrðu öll eftir í Þorpinu. Rafael Victor (9) gerði annað mark Þórs.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Meira síðar