Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Halda áfram samtali um bílakjallarann

Nýtt húsnæði fyrir legudeildir Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) mun líta svona út eða því sem næst. Mynd frá hönnunarteymi Verkís, TBL og JCA.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar harmar að ekki sé gert ráð fyrir bílakjallara í deiliskipulagi fyrir nýbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri, eða við uppbyggingu heilbrigðisþjónustu við Eyrarlandsveg, eins og það heitir í fundargerð ráðsins.

Á fundi skipulagsráðs í liðinni viku var lögð fram skipulagstillaga, að lokinni auglýsingu, um breytingu á deiliskipulagi vegna áformaðra byggingarframkvæmda á svæðinu. Engar athugasemdir bárust á kynningartímanum.

Halda samtalinu áfram samhliða framkvæmdum

Í skriflegu svari Gunnars Líndal Sigurðssonar, verkefnastjóra á sviði rekstrar og klínískrar stoðþjónustu SAk, við fyrirspurn Akureyri.net kemur fram að Sjúkrahúsið á Akureyri hafi rætt og bent á möguleika í tengslum við bílakjallara og/eða yfirbyggð bílastæði að hluta og muni halda því samtali áfram samhliða þeim framkvæmdum og verkefnum sem áætlað er að hefjist næsta sumar.

Myndin sýnir gildandi deiliskipulag (til vinstri), sem staðfest var 2008, og svo breytt skipulag út frá þeirri tillögu sem nú er unnið með.

Bílakjallarinn var hins vegar ekki inni í frumathugun sem síðast var uppfærð 2021. Þar var að sögn Gunnars lögð megináhersla á innviðaþörf og nútímavæðingu í tengslum við húsnæði legudeilda og geðþjónustu. Bílakjallari var því ekki hluti af fjárhagsáætlun þessa verkefnis þó því fylgi fjölgun bílastæða miðað við aukið byggingamagn á lóð Sjúkrahússins og aukinni starfsemi í tengslum við það.

Hugað að flæði sjúklinga, starfsfólks, gesta og aðfanga

Gunnar segir markmiðið í hönnunarútboði verkefnisins hafa verið að hanna nýbyggingu við núverandi húsnæði SAk, ásamt skipulagi lóðar með tilliti til flæðis sjúklinga, starfsfólks, gesta og aðfanga. „Í því samhengi liggja nú fyrir framtíðar stækkunarmöguleikar til næstu ára sem rúmast innan núverandi skipulags,“ segir Gunnar enn fremur í svari sínu.

Þá bendir hann einnig á að undanfarna mánuði hafi starfsfólk SAk í samvinnu við Nýjan Landspítala (NLSH), sem hefur yfirumsjón með verkefninu, og hönnunarhóp verkefnisins unnið í „þéttu notendasamráði í tengslum við nýbygginguna og miðar þeirri vinnu vel. Nýbyggingin verður algjör bylting fyrir starfsemina og til mikilla hagsbóta fyrir sjúklinga og starfsfólk.“

Mikilvægt að lóð SAk haldist óskert

Hvað varðar áframhaldandi þróun á lóð Sjúkrahússins varðar segir Gunnar að samhliða þessum framkvæmdum sé skipulag og áframhaldandi þróun á lóð SAk í sífelldri skoðun. Því sé mikilvægt að lóð stofnunarinnar haldist óskert enda muni starfsemin halda áfram að þróast til framtíðar með tilheyrandi nýjum þörfum og áskorunum.

Á vef NLSH kemur fram að með ráðgjafarsamningi milli NLSH og SAk sé fagleg aðkoma Sjúkrahússins að verkefninu tryggð. Auglýst verður opið forval og hönnun og í framhaldi af því útboð og verkframkvæmdir, en áætlað er að verkinu ljúki árið 2027, með fyrirvara um heimildir, eins og segir á vef NLSH. 

Nánar má lesa um væntanlegar framkvæmdir og undirbúning þeirra í frétt Akureyri.net frá því í maí í fyrra og á vef NLSH.