Fara í efni
Eyjafjarðarsveit

Hælið: Sultuplásturinn er vel heppnuð fræðsla

Þessir hressu drengir úr Brekkuskóla voru áhugasamir um sýninguna á Hælinu. Mynd: aðsend

Sultuplásturinn er verkefni sem María Pálsdóttir, staðarhaldari á Hælinu – setri um sögu berklanna kom á fót. Þar blandast saman fræðsla um sýningu Hælisins, leikur og útivera, en gestirnir eru nemendur í 6. bekk á Akureyri og nærsveitum. „Heimsóknin samanstendur af hálftíma leiðsögn um sýninguna Hvíta dauða, hálftíma hópeflisleiki úti á flötinni og hálftíma skógargöngu upp í Stjörnureit,“ segir María, en hún er nýbúin að taka á móti síðasta hópnum í ár þegar blaðamaður Akureyri.net nær tali af henni.

„Í ár þáðu 11 skólar boðið. Allir Akureyrarskólarnir, Dalvíkurskóli, Valsárskóli og Hrafnagilsskóli,“ segir María, en Sultuplásturinn hefur fest sig í sessi sem skemmtilegt uppbrot fyrir krakkana, og skólastjórnendur nefna gjarnan ferðina sem eftirminnilegan viðburð í skóladagatalinu. „Samtals 340 krakkar komu í heimsókn í ár, en hóparnir skiptust niður á 7 morgna í brakandi blíðu í Kristnesi. Nema kannski fyrsta heimsóknin, þá var góða veðrið ekki mætt,“ bætir María við.

 

Hælið er staðsett á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit, en þar er búið að útbúa sýningu um sögu berklaveikinnar á Íslandi, auk þess sem boðið er upp á viðburði annað slagið. María átti hugmyndina að safninu, kom því á fót og sér um reksturinn. Myndir: María Pálsdóttir / Rakel Hinriksdóttir

Í góðum höndum þriggja leikkvenna

Með Maríu á Hælinu til þess að taka á móti skólahópunum eru leikkonurnar Kolbrún Lilja Guðnadóttir og Margrét Sverrisdóttir. María er sjálf leiðsögukona um sýninguna innandyra í hjúkrunarkonubúningi, Kolbrún Lilja sér um útileikina og Margrét sér um ævintýralega skógargöngu. „Mér sýnist krakkarnir almennt ánægðir með heimsóknina. Okkar upplifun er að þeim finnst dásamlegt að fá að fara uppí skóginn og bara vera. Engin dagskrá og engar reglur, nema að ganga vel um. Þeim finnst gaman að príla í stóra sitkatrénu og hlaupa niður brekkuna á bakaleiðinni.“ segir María.

Sultuplástur kallaði ég berklaplástrana sem við fengum í læknisskoðun í skólanum

María segir að sýningin og saga berklanna hafi oft mikil áhrif á krakkana og þau eru dugleg að spyrja. „Það skapast oft spenna og eftirvænting eftir höggningunni sem var hrikalega aðgerð sem var framkvæmd á sumum berklasjúklingum,“ segir hún. „Það er alls ekki fyrir alla að horfa á tveggja mínútna myndbandið sem rúllar í einu herberginu, hljóðlaust í svarthvítu, en einhvernveginn nær það alltaf að vera hápunktur.“

En hvað er eiginlega sultuplástur? „Sultuplástur kallaði ég berklaplástrana sem við fengum í læknisskoðun í skólanum,“ segir María. „Tveir plástrar á bringu, annar hreinn en hinn með einhverju gumsi. Eftir viku var athugað hvort maður hafði fengið útbrot og ef það var roði undan báðum var allt í lagi en ef það voru bara útbrot undan sultuplástrinum þurfti að fara í frekari berklarannsóknir.“

 

Heimsóknin samanstendur af bæði inniveru og fræðslu, og útiveru og leik. Myndir: aðsendar

Sumaropnun Hælisins handan við hornið

„30 mínútur er iðulega of stutt til að skoða allt í krók og kring á safninu, en þá hvert ég krakkana til að koma aftur í sumar með mömmu og pabba og fara betur yfir þetta og kíkja kannski í vöfflur á eftir,“ segir María að lokum. Sumaropnun Hælisins hefst 3. júní, þar sem er opið alla daga nema mánudaga frá 13-17.

Sultuplásturinn er í boði fyrir skólana endurgjaldslaust, en verkefnið nýtur styrkja frá Norðurorku, Menningarsjóðs Akureyrar, Menningarmálanefnd Eyjafjarðarsveitar og Hollvina Hælisins. Einnig gefur SBA góðan afslátt af rútuferðum.