Fara í efni
easyJet

Ríkisrekin skekkja og pólitískt getuleysi

Akureyrarflugvöllur. Mynd: Þorgeir Baldursson

Hversu galið er að Isavia verji hundruðum milljóna á ári í að markaðssetja og selja Keflavíkurflugvöll, á sama tíma og dótturfélag þess er að reyna að gera hið sama af veikum mætti og litlum fjármunum fyrir Akureyri og Egilsstaði?

Þannig spyr Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, viðskiptafræðingur og flugmaður, í grein sem akureyri.net birti fyrr í dag. „Af hverju er ekki sama eining að reyna að markaðssetja alla velli og stækka í reynd „vöruúrvalið“ sitt með því að bjóða upp á fjölbreyttari valkosti á Íslandi fyrir erlend flugfélög. Isavia hefði þá amk þrjá flugvelli til að bjóða erlendum flugrekendum, en ekki bara einn.“

„Þverpólitískt getuleysi“

Töluvert hefur verið rætt og ritað undanfarna mánuði um uppbyggingu bæði á Keflavíkurflugvelli og Akureyri, til dæmis hefur Þorvaldur Lúðvík tjáð sig reglulega og í dag segir hann að „þverpólitískt getuleysi“ hafi tryggt að Isavia sé einhvers konar ríki í ríkinu „með alla stjórnarmenn af höfuðborgarsvæðinu í endalausu hópefli um Keflavík og eflingu tengimiðstöðvar á Íslandi, óháð því hvernig vindar blása að því er virðist.“

Hann talar um ríkisrekna samkeppnisbjögun og snúa frá henni, svo landið í heild sinni vaxi og njóti, þurfi að breyta eigendastefnu Isavia þannig að því verði gert að tryggja öruggar flugsamgöngur um land allt. 

Slæmt atlæti og fásinni

Þorvaldur Lúðvík segir að flug um Akureyrarflugvöll hafi sannað gildi sitt og muni aukast til framíðar, „þrátt fyrir slæmt atlæti og fásinni um rekstur, viðhald og uppbyggingu annarra flugvalla á Íslandi en Keflavíkur.“

Hann segir gefa augaleið að í strjálbýlu og fámennu landi séu ekki allir flugvellir arðsamir, „en samt sem áður finnst okkur sjálfsagt að halda úti mörgum flugvöllum vegna sjúkraflugs, innanlandsflugs, öryggis þegar Keflavík lokar, halda landinu í byggð o.s.frv., o.s.frv. Auk þess er sú eðlilega krafa að opna fleiri gáttir inn og út úr landinu lykill að því að landið byggist í heild sinni, en ekki bara á Reykjanesi.“

Hér eru nokkrir fleiri áhugaverðir punktar úr grein Þorvaldar Lúðvíks:

  • Tryggja þarf að fjárfesting í grunninnviðum komi á undan hliðarverkefnum eins og auknu verslunarrými og fleiri kaffistofum í Keflavík.
  • Á næstu þremur árum skal fjárfest fyrir um 38 milljarða króna á Keflavíkurflugvelli.
  • Til samhengis er gaman að rifja upp að eingöngu 900 milljónir fengust út úr sérstökum Covid-fjárfestingarframlögum ríkissjóðs til að stækka flugstöðina á Akureyri, segir hann og vekur athygli á að stöðin hafi ekki verið framkvæmd Isavia, heldur Covid-átak, og vitað hafi verið frá upphafi að hún væri of lítil viðbót til að styðja við stóraukið flug um Akureyrarflugvöll.
  • Hann segir að réttast væri að líta til þekktra fordæma frá nágrannalöndum okkar, „þar sem einn og sami aðili er ábyrgur í reynd fyrir öryggi, rekstri, viðhaldi og markaðssetningu allra flugvalla í grunnneti. “
  • „Þannig eru til Swedavia í Svíþjóð og Avinor í Noregi, sem reka sín kerfi þannig að tekjuskapandi einingar halda uppi kerfinu og tryggja nútímalegt öryggi þeirra allra ...“
  • Opinbera hlutafélagið Isavia er með eina eign á sínum efnahagsreikningi, Keflavíkurflugvöll. Eigendastefna, sem enn hefur ekki verið endurskoðuð fyrir Isavia ohf., tekur bara til þess það fyrirtæki skuli skila arðsemi til ríkissjóðs.
  • Ekkert um hlutverk við uppbyggingu, rekstur og öryggi flugvallakerfisins í heild sinni, heldur bara þetta, að reka risavaxna verslunarmiðstöð á Reykjanesi með tilheyrandi flugbrautum á arðsaman hátt.
  • Allir aðrir flugvellir landsins, þ.m.t. Reykjavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur – varaflugvellir landsins – eru á ríkisreikningnum en reknir frá ári til árs samkvæmt þjónustusamningi við dótturfélagið Isavia Innanlands.
  • Megnið af því fé sem þarf til rekstrar og uppbyggingar flugvallarkerfisins utan Keflavíkur kemur af fjárlögum hvers árs. Sú fjárhæð hefur ekki mikið breyst undangengin 15 ár og ekki verið í neinu samræmi við grunnþörf til að skapa nútímalegt og öruggt flugvallarkerfi.
  • Þetta gæti þó breyst ef ný-upptekið varaflugvallargjald skilar sér í reynd til málaflokksins, en líklegt að það fari bara í svarthol opinberra fjármála eins og sagan hefur viljað kenna okkur til þessa.

Grein Þorvaldar Lúðvíks: Ríkisrekinn byggðahalli