Fara í efni
easyJet

Brú yfir Glerá hjá Rangárvöllum

SÖFNIN OKKAR – 87

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

 

Safngripurinn að þessu sinni er skjal úr fórum Jakobs Karlssonar (1885-1957). Hann var oft titlaður bóndi og skipaafgreiðslumaður. Jakob var bóndí í Lundi 1928-1949 en hann kom að mörgu öðru og má lesa nánar um það t.d. hér

Skjalið kom til Héraðsskjalasafnsins í október 1997 og er teikning Árna Pálssonar (1897-1973) verkfræðings, að brú á Glerá hjá Rangárvöllum. Skjalið er stórt um sig og á meðfylgjandi mynd sést aðeins brot þess. Skjalið er dagsett 6-9-1928 og fylgdi sú saga að Jakob hafi fengið Árna til þess að teikna brúna, Glæsibæjarhreppur og Akureyrarkaupstaður hafi hvort um sig lagt 500 kr. til brúarsmíðinnar, bændur hafi lagt til vinnu en Jakob hafi greitt mismuninn.

Í bréfi sem Jakob skrifaði fyrir hönd brúareigenda til bæjarins í september 1928 segir:

Þareð brúin á Glerá, neðan Rangárvalla, er orðin mjög léleg, svo að óhjákvæmilegt er að rífa hana og byggja aðra, en eigendur gömlu brúarinnar, sjá sjer ekki fært og telja sjer heldur ekki skylt að byggja nýja brú. Þarsem vegir þeir er brúin tengir saman eru mjög fjölfarnir af Akureyrarbúum og öðrum; hefir okkur því komið til hugar að fara þess á leit við háttvirta bæjarstjórn Akureyrar, að hún greiði efni að hálfu til nýju brúarinnar, sem áætlað er að nemi allt að 700 krónum. Glæsibæjarhreppur hefir lofað allt að 700 króna framlagi að sínum hluta.

Brúin sem um ræðir, sú neðri, á góðviðrisdegi fyrr í sumar. Byggingarárið er 1933 en sú yngri, sem rauði bíllinn ekur yfir á myndinni, var byggð 1982 og tengir Hlíðarbraut og Þingvallastræti. Þarna er líka göngubraut frá 1989 en sést ekki á myndinni. Mynd: Lára Ágústa Ólafsdóttir

 

Ef trúa má timarit.is hefur það ekki þótt markvert fréttaefni að byggð væri ný brú á Glerá en ekki er minnst á brúarsmíð á ánni 1928 til 1933 en fram kemur í Degi 25. maí 1933 að verið sé að leggja brú yfir Glerá, ,,…fyrir austan gömlu brúna, sem mjög er orðin af sér gengin. Nýja brúin er gerð úr steinsteypu.”

Mikið væri gott ef fréttamaðurinn hefði skrifað nákvæmar hvar verið væri að byggja þessa nýju brú en að öllum líkindum er verið að tala um brú neðan Rangárvalla og þá eftir teikningunni sem Árni gerði 1928.

Á þessum tíma var einnig brú á þjóðveginum norður úr bænum, brúin við Lönguhlíð, og göngubrú á svipuðum slóðum og brúin var gerð á Glerárgötu 1953. Í bréfi skrifuðu árið 1939 var göngubrúin nefnd Neðri-Glerárbrú en hefði með réttu átt að vera Neðsta-Glerárbrú.

Við höfum ekki aðgang að byggingarreikningi brúarinnar neðan Rangárvalla og vitum því ekki um kostnaðinn en fram kemur í ársreikningi Akureyrarkaupstaðar fyrir árið 1928 að greiddar voru umbeðnar krónur úr bæjarsjóði til brúar við Rangárvelli. Einnig kemur fram í bókhaldi Glæsibæjarhrepps árið 1929 að hreppurinn hafi greitt 700 kr. upp í byggingarkostnað brúarinnar við Rangárvelli.