Grenndarstöð lokað við Skautahöllina

Staðsetning grenndarstöðvar við Skautahöllina hefur reynst óheppileg vegna umferðar iðkenda Skautafélagsins um bílastæðið. Því var ákveðið að loka grenndarstöðinni frá og með 1. júní. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.
Fjöldið iðkenda listskautadeildar og íshokkídeildar Skautafélagsins á leið um bílastæðið við grenndarstöðina því hún stendur alveg við stoppstöð strætisvagna og skarast því iðulega gönguleið iðkenda á leið til eða frá æfingum og þeirra sem erindi eiga á grenndarstöðina.
„Unnið er að því að finna nýja og hentuga staðsetningu fyrir grenndarstöð sem gæti þjónað íbúum Innbæjar og Hagahverfis. Þangað til verður hægt að nýta nærliggjandi grenndarstöðvar, til dæmis við Ráðhúsið eða við Bónus í Naustahverfi,“ segir meðal annars í fréttinni.
Með lokun þessarar grenndarstöðvar verða eftir átta grenndarstöðvar, en upplýsingar um sorphirðu og flokkun má finna á vef Akureyrarbæjar.