Fara í efni
DNG

Strætó fer fram á flugvöll – ferðum suður fækkað

Núverandi leiðakerfi landsbyggðavagna Strætó er 13 ára gamalt og því tími kominn á uppfærslu á kerfinu.

Frá og með áramótum verður aðeins ein strætóferð í boði á dag milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þá munu allir landsbyggðastrætóarnir, 56, 57, 78 og 79, sem keyra um Akureyri, byrja og enda sínar ferðir á Akureyrarflugvelli.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, sem fer með ábyrgð og rekstur landsbyggðarvagna fyrir hönd ríkisins, munu nýir samningar varðandi akstur landsbyggðavagnanna taka við á öllum útboðssvæðum landsins þann 1. janúar 2026, nema á Austurlandi. Á Norðurlandi hefur SBA Norðurleið séð um akstur á strætóleiðum 56, 78 og 79  undanfarin fimm ár en fyrirtækið er að hætta akstri á þessum leiðum en við akstri á landsbyggðavögnum á Norðurlandi taka Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf. (Norður- og Norðausturland) og Hópbílar ehf. (Norður- og Vesturland).

Nýtt leiðakort landsbyggðavagna á Akureyri. Allar leiðir koma til með að keyra að Akureyrarflugvelli. Leið 56 og 79 keyra báðar í gegn um Vaðlaheiðargöng, þó annað virðist á þessu korti. 

Allir vagnar stoppa á Akureyrarflugvelli

Samhliða nýjum samningum verða ýmsar breytingar gerðar á leiðakerfinu. Helstu breytingarnar sem snerta íbúa á Norðurlandi eru þær að landsbyggðavagnarnir, sem keyra til og frá Akureyri, munu allir keyra fram á flugvöll. Íbúar og gestir á Akureyri sem þurfa að komast í flug geta þannig nýtt sér landsbyggðavagnana vegna innanlandsflugs þar sem tímatafla vagnanna er sett upp þannig að hún passi við sem flestar ferðir innanlandsflugsins. Stök strætóferð innanbæjar til og frá flugvellinum mun kosta 600 krónur.

Færri ferðir milli Akureyrar og Reykjavíkur

Þá mun leið 57 aka um Þórunnarstrætið á sunnudögum á leggnum Reykjavík-Akureyri sem hentar vel fyrir nemendur á heimavist MA og VMA sem eru að koma úr helgarfríi. Ferðum 57 mun hins vegar fækka og verður aðeins ein ferð farin alla daga vikunnar, þ.e.a.s. ein ferð frá Reykjavík og önnur frá Akureyri. Þá snýst upphaf og endir leiðar 56 sem keyrir á milli Akureyrar og Egilsstaða við. Frá áramótum verður byrjað og endað á Egilsstöðum. Þessi breyting nýtist Austfirðingum sem þurfa t.d. að sækja læknisþjónustu til Akureyrar betur en þá þarf ekki að gista nema eina nótt á Akureyri í stað tveggja nátta áður ef leið 56 er nýtt.

Í nóvember mun Vegagerðin standa fyrir kynningarherferð á þessum breytingum og fleirum. Eru farþegar hvattir til að fylgjast með á heimasíðu Strætó og Vegagerðarinnar þar sem fljótlega verður hægt að fá ítarlegar upplýsingar um breytingarnar.

  • Akureyri.net fjallar nánar um breytingu á leið 57 á morgun