Lilja er þriðja kynslóð Akureyrarmeistara

Lilja Maren Jónsdóttir sigraði í meistaraflokki kvenna á Akureyrarmótinu í golfi sem lauk í gær. Lilja Maren, sem er aðeins 16 ára, fagnaði sigri á mótinu í fyrsta skipti en svo skemmtilega vill til að hún er þriðja kynslóð Akureyrarmeistara; faðir hennar, Jón Steindór Árnason, varð meistari árið 2005 og föðurafinn, Árni Jónsson, sá orðlagði golfkennari, varð Akureyrarmeistari árið 1975 – fyrir nákvæmlega 50 árum.
„Já, ég verð að viðurkenna að ég hugsaði um það,“ sagði Lilja Maren við Akureyri.net eftir sigurinn, spurð hvort hún hefði haft meistaratitla forfeðranna í huga. „Maður labbar oft framhjá skiltinu með nöfnum klúbbmeistaranna og ég pældi oft í þessu í vetur. Það var á planinu að reyna að vinna líka eins og þeir, og gaman að það tókst. Það var mjög stórt fyrir mig.“
Lilja Maren varði töluverðum tíma á golfvellinum ung að árum eins og nærri má geta í ljósi iðkunar Jóns Steindórs og Árna. „Ég fór oft með pabba og afa upp á golfvöll, ég man að hafa verið rúntandi um völlinn með afa og verið á púttgrínunum með pabba, þegar ég var lítil.“
Meistarinn ungi segist hafa verið að dunda sér í golfi alla tíð, eins og hún kemst að orði, „en ég byrjaði samt ekki að æfa almennilega fyrr en fyrir svona fimm árum, og fór ekki að keppa fyrr en 2022.“
Lilja Maren tók forystu strax á fyrsta degi Akureyrarmótsins. Lék fyrstu 18 holurnar á 82 höggum, Kara Líf Antonsdóttir lék á 86 og Björk Hannesdóttir á 91. Lilja hélt fyrsta sætinu allan tímann og svo fór að hún sigraði með 10 högga mun; lék holurnar 72 á alls 314 höggum en Björk og Kara Líf báðar á 324.
Kíkti ekki á stöðuna
Akureyrarmeistarinn var nokkuð ánægður með eigin spilamennsku á mótinu. „Ég átti fjögur högg á Köru eftir fyrsta daginn, þegar við vorum allar í pínu basli,“ segir Lilja Maren. Hún lék á 77 höggum annan daginn, Björk á 76 og Kara á 75, þannig að forysta Lilju var þá orðin aðeins tvö högg. „Ég endaði annan hringinn svolítið óheppilega en annars var það flottur hringur.“
Hún náði öruggu forskoti á ný á þriðja degi. „Ég var mjög ánægð með spilamennskuna þá,“ segir Lilja Maren en fyrir síðasta dag hafði hún 12 högga forskot á Köru Líf. Þrátt fyrir það segist hún hafa verið mjög stressuð á síðasta hringnum.
„Ég var alveg að fara á taugum á hringnum í dag!“ sagði hún blákalt þegar rætt var um síðustu 18 holurnar. „En ég gerði það að reglu fyrir mig að kíkja ekki á hvernig staðan var eftir hvern dag. Ég vissi auðvitað að ég væri í forystu; fólk var alltaf að koma til mín og tala um stöðuna, en ég passaði mig á að hugsa ekki mikið um það.“
Lilja Maren segir andlegu hliðina gríðarlega mikilæga. „Maður verður að passa hausinn. Það má ekki pæla of mikið í því sem aðrir eru að gera af því að maður hefur enga stjórn á því. Það verður bara að hugsa um sig; markmiðið er að reyna alltaf að gera sitt besta og sjá svo til hvað gerist.“
Næsta verkefni Lilju Marenar og samherja hennar í GA er Íslandsmót golfklúbba. Golfklúbbur Akureyrar sigraði í 2. deild í fyrra og leikur því á meðal þeirra bestu á ný í ár. Íslandsmótið verður 24. til 26. júlí og þar verða Lilja Maren og félagar á heimavelli; kvennakeppnin verður á Jaðarsvelli í ár.
Umfjöllun Akureyri.net um Akureyrarmótið:
Valur Snær og Lilja með forystu
Spennan eykst á Akureyrarmótinu
Lilja Maren og Valur gefa ekkert eftir
Akureyrarmótið: Úrslit ráðin í öldungaflokkum
Þriðja keppnisdegi lokið á Akureyrarmótinu