Hlutur Norðurorku í Skógarböðunum til sölu

Norðurorka hf., hefur tekið ákvörðun um að setja 4,54% eignarhlut sinn í Skógarböðum ehf. í opið söluferli og býður áhugasömum fjárfestum að gera tilboð í hlutinn. Greint er frá þessu á vef Norðurorku í dag.
Norðurorka kom að uppbyggingu Skógarbaða á sínum tíma, segir í tilkynningunni, og það hafi verið ánægjulegt að vera þátttakandi að uppbyggingu félagsins og fylgjast með vexti þess á undanförnum árum.
Einbeitum okkur að kjarnastarfsemi
Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku, segir: „Starfsemi Norðurorku felst fyrst og fremst í rekstri veitna við Eyjafjörð og í Fnjóskadal. Fyrirhuguð er frekari uppbygging Skógarbaða, m.a. með byggingu glæsilegs hótels, og hefur stjórn Norðurorku tekið ákvörðun um að selja eignarhlut sinn og einbeita sér enn frekar að kjarnastarfsemi félagsins.“
Á vef Norðurorku segi ennfremur:
Skógarböðin eru einstakt baðlón staðsett í útjaðri Akureyrabæjar. Skógarböðin opnuðu í maí 2022 og hafa á stuttum tíma fest sig í sessi sem einn vinsælasti áfangastaður innlendra og erlendra ferðamanna á Norðurlandi. Félagið hefur vaxið hratt frá opnun en um 150 þúsund gestir sóttu baðlónið á síðasta ári og nam veltan rétt tæpum milljarði króna.
Frekari upplýsingar um söluferlið, þ.á.m. sölulýsingu um Skógarböðin má finna HÉR
Rétt er að geta þess að eingöngu verður tekið við tilboðum á sérstöku tilboðsformi og samkvæmt þeim skilmálum sem þar koma fram. Tilboðsfrestur til að skila inn óskuldbindandi tilboði er til kl. 16.00, fimmtudaginn 25. september 2025.