Covid-19
Leikur KA í Kópavogi færður til sunnudags
30.07.2025 kl. 13:30

Tobias Thomsen framherji Breiðabliks bjargar á línu þegar Rodri skallaði að marki eftir hornspyrnu í fyrri deildarleik KA við Íslandsmeistarana í maí. Komið var í uppbótartíma og Blikar unnu 1:0. Mynd: Ármann Hinrik
Leik Breiðabliks og KA í 17. umferð Bestu deildarinnar hefur verið flýtt um rúma tvo sólarhringa vegna Evrópukeppni. Upphaflega átti leikurinn að fara fram á Kópavogsvelli næsta þriðjudagskvöld – og er reyndar enn skráður þá á vef KSÍ þegar þetta er skrifað – en hann verður sunnudaginn 3. ágúst. Flautað verður til leiks kl. 16.30.
KA mætir danska liðinu Silkeborg í Sambandsdeild Evrópu á morgun, fimmtudag, og komist KA-menn áfram mæta þeir annað hvort Novi Pazar frá Serbíu eða Jagiellonia frá Póllandi, í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar. Fyrri leikurinn yrði fimmtudaginn 7. ágúst á Laugardalsvelli og sá síðari ytra viku síðar, fimmtudaginn 14. ágúst.
Lið Breiðabliks steinlá, 7:1, fyrir pólska liðinu Lech Poznan á útivelli í forkeppni Meistaradeildarinnar í fyrri leiknum, sá seinni fer fram í kvöld og fullyrða má að Íslandsmeistararnir fara ekki áfram. Blikar halda þrátt fyrir það áfram keppni; færast niður í Evrópudeildina og leika aftur strax í næstu viku.