Fara í efni
Covid-19

Langur laugardagur í Lengjudeild og Bestu

Vikan sem er að líða hefur verið róleg hjá knattspyrnuliðum Akureyrar, en á morgun verður „langur laugardagur“ og vonandi til lukku fyrir knattspyrnuáhugafólk á Akureyri. Meistaraflokksliðin í fótboltanum spila öll á morgun, laugardag. Þór/KA og KA eiga heimaleik í Bestu deildunum og Þór útileik í Lengjudeildinni.

LAUGARDAGUR - fótbolti

Þór/KA tekur á móti liði Stjörnunnar í Boganum á morgun kl. 13. Liðin eru í 4. og 5. sæti deildarinnar að loknum sex umferðum. Þór/KA er með 12 stig í 4. sætinu og Stjarnan með níu stig í 5. sætinu. Bæði unnu sína leiki í 6. umferðinni. Þór/KA vann útisigur gegn Fram og Stjarnan heimasigur gegn FHL.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu
    Boginn kl. 13:00
    Þór/KA - Stjarnan

Þessi lið hafa mæst alls 68 sinnum í meistaraflokki í hinum ýmsu mótum, þar af er 41 leikur í efstu deild. 

- - -

KA tekur á móti Aftureldingu í 8. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á morgun. Afturelding er í efri hluta deildarinnar, hefur unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli í fyrstu sjö umferðunum, er með tíu stig í 6. sæti deildarinnar, reyndar eins og KR og Stjarnan sem eru í sætunum fyrir ofan. KA hefur verið í erfiðleikum og aðeins unnið einn leik, en gert tvö jafntefli. Liðið er í neðsta sæti deildarinnar með fimm stig, stigi á eftir ÍA, tveimur á eftir FH og þremur á eftir ÍBV.

  • Besta deild karla í knattspyrnu
    Greifavöllurinn kl. 17:00
    KA - Afturelding

KA gerði markalaust jafntefli við ÍBV í Eyjum í síðustu umferð, en Afturelding bauð hins vegar upp á markaveislu með 4-3 sigri á KR í Mosfellsbænum. KA og Afturelding hafa aðeins mæst átta sinnum í meistaraflokki karla, en aldrei áður í efstu deild.

- - - 

Grindavíkurvöllur er kominn aftur í notkun eftir allt sem fylgt hefur náttúruhamförunum á svæðinu undanfarin misseri. Grindvíkingar hafa nú þegar leikið einn leik á vellinum í sumar, þann fyrsta frá því haustið 2023. Nú er komið að Þórsurum að fara á grasið í Grindavík.

  • Lengjudeild karla í knattspyrnu
    Stakkavíkurvöllur í Grindavík kl. 16:00
    Grindavík - Þór

Þór er í 7. sæti deildarinnar með fjögur stig að loknum þremur leikjum, en Grindavík sæti ofar, einnig með fjögur stig. Þór tapaði heima, 2-4, fyrir Keflavík í síðstu umferð, en Grindavík vann 4-2 útisigur á Þrótti.