Fara í efni
Covid-19

Íshokkí í Litháen – alls konar hér heima

Vikan fram undan býður upp á leiki í íshokkí, blaki, handbolta, körfubolta og fótbolta. Karlalið SA í íshokkí heldur utan síðar í vikunni til þátttöku í 1. umferð Continental Cup IIHF 2026. SA Víkingar mæta liðum frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen, en spilað er í Vilnius í Litháen. Án efa virkilega erfiðir andstæðingar sem bíða Akureyringa við Eystrasaltið. Annars er vikan nokkuð hefðbundin, en þó heldur annasöm hjá kvennaliði KA í blakinu sem spilar þrjá leiki á innan við þremur sólarhringum, en bót í máli að þeir eru allir á heimavelli og ferðalög því ekki til að auka á álagið.

MIÐVIKUDAGUR 15. OKTÓBER - blak

Kvennalið KA í blaki verður frekar upptekið þegar líður á vikuna, en liðið spilar þrjá heimaleiki í seinni hluta vikunnar, ein n á miðvikudag, einn á föstudag og einn á laugardag. Ástæðan fyrir þessari þéttu leikjadagskrá er frestanir leikja í tengslum við æfingaferð annars vegar og landsliðsverkefni hins vegar.

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 19
    KA - Þróttur Fjarðabyggð

KA er í 2. sæti deildarinnar með níu stig, hefur unnið alla þrjá leiki sína til þessa. HK er á toppnum með 15 stig úr fimm leikjum og hefur einnig unnið alla sína leiki. Þróttur Fjarðabyggð er í botnsætinu, hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum.

FIMMTUDAGUR 16. OKTÓBER - handbolti

KA hefur byrjað tímabilið vel í Olísdeild karla í handknattleik. Nú síðast unnu þeir Íslandsmeistara Fram á þeirra heimavelli og eru í 4. sæti deildarinnar með átta stig, jafnir Val að stigum og aðeins tveimur stigum á eftir liðunum í tveimur efstu sætunum. Á fimmtudag er einmitt komið að því að taka á móti Valsmönnum í KA-heimilinu. 

  • Olísdeild karla í handknattleik
    KA-heimilið kl. 18:30
    KA - Valur

- - -

Þórsarar eru í 11. og næstneðsta sæti Olísdeildar karla í handknattleik með fjögur stig að loknum sex umferðum, jafnir HK og Fram að stigum. Þeir hafa unnið einn leik og gert tvö jafnefli, en tapað þremur. Þeir voru hársbreidd frá því að vinna FH í Kaplakrika í síðustu umferð eftir að hafa lent átta mörkum undir og náð svo forystunni á lokamínútunni, en FH náði að jafna á síðustu sekúndum leiksins. Þórsarar taka á móti HK í Höllinni á fimmtudagskvöld.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19
    Þór - HK

FÖSTUDAGUR 17. OKTÓBER - íshokkí, körfubolti, blak

SA Víkingar, karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí, er á leið til Vilnius í Litháen síðar í vikunni til þátttöku í fyrstu umferð Continental Cup sem haldið er á vegum Alþjóða íshokkísambandsins, IIHF. Mótherjar SA Víkinga verða heimamenn í Mogo Riga,
litháíska félagið Hockey Punks Vilnius og eistneska félagið Narva PSK. Þetta verður stutt og snörp ferð hjá Akureyringunum því þeir spila þrjá leiki, einn á dag frá föstudegi fram á sunnudag.

Tímasetningar sem hér eru sýndar eru að íslenskum tíma.

  • Continental Cup IIHF, 1. umferð, A-riðill
    Twinsbet Arena, Vilnius í Litháen, kl. 17 
    Hockey Punks Vilnius - SA

SA Víkingar eru í erfiðum riðli því þeir færðust upp um styrkleikaflokk eftir að lið í riðli fyrir ofan þá hætti við þátttöku. SA var þá boðið sætið sem þeir þáðu. Eins og fram hefur komið í umfjöllun um leiki liðsins hér heima hafa SA Víkingar fengið liðsstyrk innan frá því Ingvar Þór Jónsson, margreyndur Íslandsmeistari og landsliðsmaður, hefur tekið fram skautana að nýju og kom við sögu í síðustu tveimur leikjum liðsins í forkeppni Toppdeildarinnar. 

- - -

Þórsarar hófu leik í 1. deild karla í körfuknattleik síðastliðið föstudagskvöld, tóku þá á móti Sindra frá Hornafirði í Höllinni á Akureyri og máttu þola 20 stiga tap, 82-102, fyrir Hornfirðingum. Slök byrjun Þórsara reyndist þeim dýrkeypt þegar upp var staðið, en gestirnir höfðu náð 16 stiga forystu eftir fyrri hálfleikinn.

Þór á strax annan heimaleik á föstudagskvöld þegar Breiðablik kemur í heimsókn í Höllina. Breiðablik vann öruggan sigur á Selfyssingum í fyrstu umferðinni, 87-58.

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Breiðablik

- - -

Kvennalið KA í blaki tekur á móti liði Aftureldingar í tveimur leikjum um komandi helgi, á föstudagskvöld og laugardag. Afturelding hefur aðeins spilað einn leik það sem af er móti og er með tvö stig.

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 19:30
    KA - Afturelding

LAUGARDAGUR 18. OKTÓBER - íshokkí, blak

Annar leikur SA Víkinga í Continental Cup í Vilnius í Litháen fer fram í dag og hefst kl. 11 að íslenskum tíma. Í dag er það lið frá Lettlandi sem Akureyringar takast á við.

  • Continental Cup IIHF, 1. umferð, A-riðill
    Twinsbet Arena, Vilnius í Litháen, kl. 11
    Mogo Riga - SA 

- - -

KA tekur á móti Vestra á Íslandsmóti karla í blaki á laugardag og sunnudag. KA er í 2. sæti deildarinnar með níu stig úr fjórum leikjum, hefur unnið þrjá leiki og tapað einum. Hamar er á toppnum með 12 stig, en hefur leikið einum leik meira en KA. Öll liðin hafa nú þegar tapað leik eða leikjum.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    KA-heimilið kl. 15
    KA - Vestri

- - -

Kvennalið SA í íshokkí hefur byrjað leiktíðina vel og unnið fyrstu þrjá leiki sína, tvo mjög örugga sigra gegn Fjölni og svo 3-1 sigur gegn SR í jafnari leik. Nú er komið að því að sækja SR-inga heim í Laugardaglinn á laugardag. 

  • Toppdeild kvenna í íshokkí
    Skautahöllin í Laugardal kl. 16:45
    SR - SA

- - -

Seinni leikur KA og Aftureldingar verður á laugardag, sem er reyndar þriðji leikur KA-liðsins á þremur sólarhrinigum.

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 17:30
    KA - Afturelding

SUNNUDAGUR 19. OKTÓBER - íshokkí, blak

Í dag er á dagskrá þriðji og síðasti leikur SA Víkingar í 1. umferð Continental Cup IIHF, en riðill SA er spilaður í Vilnius í Litháen. Í dag er komið að viðureign gegn eistnesku liði.

  • Continental Cup IIHF 2026
    Twinsbet Arena, Vilnius í Litháen, kl.  11:00
    SA - Narva PSK

- - -

Seinni viðureign KA og Vestra í Unbroken-deild karla í blaki er á dagskrá á sunnudag.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    KA-heimilið kl. 12
    KA - Vestri

- - -

Senn líður að lokum Íslandsmóts karla í knattspyrnu. Tvær umferðir eru eftir, bæði í efri og neðri hluta deildarinnar. KA hefur nú þegar forðað sér úr fallhættu, en mótherjarnir í næstu umferð eru ekki alveg sloppnir. Skagamenn hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu, hafa unnið alla þrjá leikina til þessa í neðri hlutanum og samtals fimm leiki í röð. Þeir eru í bestri stöðu þeirra liða sem enn eiga á hættu að falla. Fari allt á versta veg fyrir ÍA gæti liðið fallið á markamun, en liðið getur aftur á móti forðast fallið með því að ná sér í stig í næstu umferð.

KA er í næstefsta sæti neðri hlutans, 8. sæti yfir alla deildina, þegar tveimur umferðum er ólokið. KA hefur 33 stig, en ÍA með 31 stig, sæti neðar en KA.

  • Besta deild karla í knattspyrnu, neðri hluti
    Greifavöllurinn kl. 14
    KA - ÍA

- - -

Lesendur eru hvattir til að minna á íþróttaviðburði hvers kyns sem fram undan eru, sérstaklega ef eitthvað verður út undan og gleymist í þessari vikulegu yfirferð á mánudögum hér á akureyri.net - sendið tölvupóst í haraldur@akureyri.net ef koma þarf slíkum upplýsingum á framfæri.