Fara í efni
Covid-19

30.000 sýni skimuð á SAk það sem af er ári

Mikið álag hefur verið í PCR skimunum vegna Covid hérlendis síðustu vikur sem starfsmenn Rannsóknadeildar á Sjúkrahúsinu hafa heldur betur fundi fyrir. „Töluverð bið er eftir niðurstöðum úr PCR mælingum fyrir sunnan en á SAk hefur verið unnið fram á kvöld til að klára daginn og hingað til hefur náðst að svara öllu innan 24 klst. frá sýnatöku,“ segir Inga Stella Pétursdóttir, forstöðulífeindafræðingur á Rannsókn, í pistli á vef Sjúkrahússins.

Met var slegið á SAk þriðjudaginn 8. febrúar þegar skimuð voru 1.357 sýni, en af þeim reyndust 447 jákvæð. Gamla fjöldametið var 870 á einum degi síðan um miðjan janúar. Það sem af er þessu ári hafa 30.000 sýni verið skimuð á Rannsókn SAk. Allt árið í fyrra voru skimuð þar 45.000 sýni þannig að nú þegar hafa verið skimuð 67% af þeim fjölda.

„Von stóð til að fækkun yrði í sýnafjölda eftir að sóttkví-skimanir voru afnmumdar að mestu en það reyndist vera stór misskilningur þar sem sýnafjölda síðustu daga/vikur hefur verið á bilinu 900-1200 sýni. Sýni hafa því aldrei verið fleiri og hlutfall jákvæðra aukist mikið þar sem langstærstur hluti sýnanna eru einkennasýni. Hlutfall jákvæðra skimana undanfarna daga hefur verið um 30-45% hér fyrir norðan,“ segir hún.

Álagið á starfmenn deildarinnar er mikið þar sem PCR skimanir fram á kvöld og um helgar eru til viðbótar við almennar vaktir sem unnar eru á deildinni, segir Inga Stella. Flest kvöld og frídaga eru fjórir til fimm starfsmenn að vinna aukalega, umfram áætluð vaktaplön. „Eins og aðrir vinnustaðir hefur deildin misst starfsmenn í einangrun og sóttkví sem eykur álagið töluvert. Starfsmenn heima í einangrun/sóttkví hafa verið beintengdir við PCR tölvurnar og svara keyrslum jafnóðum og þær klárast og deildin er afar þakklát því hæfa fólki sem starfar á upplýsingatæknideildinni og gat útfært þetta fyrirkomulag.“

Í liðinni viku ákvað sóttvarnalæknir að raðgreiningum á jákvæðum sýnum yrði hætt og við það sparaðist mikil vinna á deildinni þar sem mjög mikill tími fór í að finna jákvæðu sýnin innan um, taka ofan af þeim, pakka þeim og skrá til sendingar,“ segir Inga Stella.

„Við berum okkur þokkalega þrátt fyrir álag og höfum verið að fá ýmsa glaðninga frá fyrirtækjum í bænum eins og bakkelsi, útvarp, nuddsetu og fl. sniðugt og kunnum við þeim fyrirtækjum sem hafa sent okkur glaðninga miklar þakkir fyrir,“ skrifar Inga Stella Pétursdóttir.

Hún segir starfsmenn Rannsóknadeildar SAk reyna að vera duglegt að birta upplýsingar á Instagram síðu deildarinnar.