Fara í efni
Bókakosturinn

Ekki þarf alltaf mörg orð til að snerta hjarta

AF BÓKUM – 50

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Svala Hrönn Sveinsdóttir_ _ _

Héraholan eftir John Dougherty

Stundum þarf ekki mörg orð til að snerta hjarta. Héraholan er ljúfsár og áhrifarík saga um vináttu, missi og minningar sem halda áfram að lifa. Í sögunni kynnumst við Hörpu héra og Skúla skjaldböku sem eru bestu vinir og deila öllum stundum saman – þar til einn daginn er Harpa horfin. Eftir stendur héraholan við hlið Skúla, sem minnir hann daglega á tómið sem hún skilur eftir sig. Skúli veit ekki hvernig hann á að bera sorgina og upplifir allan tilfinningaskalann – tómleika, reiði og djúpan söknuð. Þá mætir hann Birtu, stórum og hlýlegum birni sem verður honum nýr vinur. Birta er tákn um von og ljós, og hún hjálpar Skúla að sjá að holan er ekki aðeins hola, heldur rými minninga og ástar, staður þar sem vináttan lifir áfram þó vinkona hans sé farin. Sagan minnir okkur á að sorg er ekki bara myrkur, heldur líka ferli þar sem ljós getur aftur smám saman skinið inn, og að ástin sem við misstum hverfur aldrei, hún breytir aðeins um form og lifir áfram í huga og hjarta.

Ég las bókina með sjö ára dóttur minni nýlega, og þrátt fyrir að Héraholan sé ekki löng saga vorum við lengi að lesa og spjalla um hana. Bókin opnaði fyrir margar spurningar sem stelpan mín hafði – um sorg, vináttu og hvernig það er að missa einhvern sem maður elskar. Við gátum líka speglað okkar eigin reynslu í tilfinningum Skúla, og það gerði umræðurnar enn dýrmætari.

Héraholan er nefnilega ekki aðeins falleg saga um vináttu og missi, heldur líka gagnlegt samtalstæki fyrir foreldra og börn. Hún auðveldar börnum að skilja tilfinningar sínar og skapar rými fyrir samtöl sem geta styrkt fjölskylduböndin á erfiðum stundum.