Fara í efni
Blak

Þór vann Þrótt í leik um sæti í efstu deild – 1976

Sigurreifir Þórsarar á Kópavogsvelli í september 1976 eftir sigur á Þrótti sem tryggði Þórsliðinu sæti í efstu deild í fyrsta skipti. Myndina tók Ragnar Axelsson og birtist hún í Morgunblaðinu. Nöfn allra á myndinni má sjá neðst í fréttinni.

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 96

Akureyrarliðið Þór tryggði sér á laugardaginn rétt til að leika í 1. deild næsta ár. Þórsararnir unnu þá Þrótt, Reykjavík, 2:0 í keppninni um lausa sætið í 1. deild og var sigurinn fyllilega verðskuldaður.

Stuðningsmenn Þórs vonast örugglega til þess að lesa setningu ámóta þessari síðar í dag, enda mætir lið þeirra Þrótti eftir hádegi í lokaumferð næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, og getur tryggt sér sæti í efstu deild, eins og fjallað er um í annarri frétt.

Setningin sem um ræðir er hvorki tilbúningur né ný af nálinni. Á morgun verða liðin nákvæmlega 49 ár síðan hún birtist í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 14. september 1976, þar sem fjallað var um leik Þórs og Þróttar á Kópavogsvelli laugardaginn 11. september.

Þróttur varð í níunda og neðsta sæti 1. deildar, eins og efsta deildin kallaðist þá, en Þór í öðru sæti 2. deildar. ÍBV varð í efsta sæti, Eyjamenn fóru því beint upp og þar sem fjölga átti um eitt lið í 1. deild mættust Þróttur og Þór í aukaleik um það sæti.

Tilvalið er, í ljósi leiksins sem framundan er í dag, að þessi mynd af Þórsurum frá haustinu 1976 – úrklippa úr Morgunblaðinu – sé gamla íþróttamyndin þessa helgina

Upp um tvær deildir á tveimur árum

Þór og KA tefldu í áratugi fram sameiginlegu liði í nafni Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) en upp úr samstarfinu slitnaði eftir að ÍBA féll úr efstu deild haustið 1974. Þór og KA léku því bæði í 3. deild, neðstu deild Íslandsmótsins, sumarið 1975. Þór sigraði í deildinni og KA komst líka upp, eftir umspil. Þór varð svo í öðru sæti 2. deildar árið eftir, sem fyrr segir.

Morgunblaðið sagði m.a. eftir leikinn við Þrótt í Kópavogi í september 1976:

„Frammistaða Þórs s.l. tvö ár er einkar athyglisverð. Þegar Akureyri hætti að senda sameiginlegt lið í Íslandsmótið undir merkjum ÍBA haustið 1974 hófu Þór og KA að leika í 3. deild og hefur Þór unnið sig upp í 1. deild á aðeins tveimur árum, sem er einsdæmi hérlendis. Akureyringar fá nú á nýjan leik að sjá lið 1. deildar leika nyrðra og eru þeir vafalaust ánægðir með það. Morgunblaðið óskar Þórsurum til hamingju með 1. deildarsætið.“

Töluverður vindur var í Kópavogi 11. september 1976. Þórsarar léku undan vindi í fyrri hálfleik og gerðu þá bæði mörkin. Árni „sprettur“ Gunnarsson nýtti sér aðstæður þegar 15 mínútur voru liðnar þegar hann tók hornspyrnu frá hægri. Árni „skaut vel upp í vindinn,“ eins og sagði í Morgunblaðinu. Markvörðurinn missti jafnvægið og datt áður en boltinn kom til hans, blaðamanni og fleirum fannst Magnús Jónatansson hrinda markverðinum í uppstökkinu en dómarinn sá ekkert athugavert. Boltinn sveif því í markið.

Síðan segir Morgunblaðið:

„Þórsarar efldust mjög við markið og bættu öðru við á 29. minútu og var mjög vel að því marki unnið af hálfu Þórsara. Aðalsteinn Sigurgeirsson tók innkast vinstra megin og sendi boltann til Sigurðar Lárussonar. Sigurður sendi boltann aftur á Aðalstein, hann lék upp að endamörkum og renndi boltanum aftur til Sigurðar, sem lagði hann fyrir sig og skoraði með föstu skoti rétt fyrir utan markteigshornið vinstra megin.“

Mikil gleði var að vonum í herbúðum Þórsara þegar leikurinn var flautaður af, segir í Morgunblaðinu. „Tóku þeir m.a. þjálfara sinn, Bretann Reynolds, og tolleruðu hann. Þórsararnir voru vel að sigrinum komnir. Þeir léku oft á tíðum ágæta knattspyrnu og vörnin var traust þótt ekki reyndi mikið á hana. Og í markinu stóð hinn gamalkunni kappi Samúel Jóhannsson og átti hann skínandi leik. Þar eru hlutirnir afgreiddir æsingalaust. Uppistaðan í liðinu eru menn, sem menn muna eftir úr ÍBA-líðinu, svo sem Samúel, Sigurður Lárusson, Gunnar Austfjörð, Pétur Sigurðsson, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Arni Gunnarsson og bræðurnir Magnús og Sævar Jónatanssynir.“

  • Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 14. september 1976. Þar sagði:

Þetta eru mennirnir, sem komið hafa Þór úr 3. í 1. deild á tveimur árum. Neðri röð, talið frá vinstri: Douglas Reynolds þjálfari, Óskar Gunnarsson, Sævar Jónatansson, Einar Sveinbjörnsson, Oddur Óskarsson, Ragnar Þorvaldsson, Magnús Jónatansson, Samúel Jóhannsson, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Árni Gunnarsson og Gunnar Austfjörð. Efri röð, talið frá vinstri; Helgi Örlygsson, Þorbjörn Jensson, Baldvin Þ. Harðarson, Hilmar Baldvinsson, Jón Lárusson, Sigurður Lárusson, Björn Víkingsson, Pétur Sigurðsson, Sigtryggur Guðlaugsson, Árni Stefánsson, Einar Björnsson og Þóroddur Hjaltalín, formaður knattspyrnudeildar Þórs.