Fara í efni
Blak

Lilja Maren og Víðir Steinar fögnuðu sigri

Til hamingju! Víðir Steinar Tómasson tekur á móti þakkarfaðmi Vals Snæs Guðmundssonar eftir að þeir luku leik á Jaðarsvelli í dag, eftir æsispennandi keppni. Til hægri púttar Lilja Maren Jónsdóttir í dag; hún sigraði af miklu öryggi í meistaraflokki kvenna. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Lilja Maren Jónsdóttir og Víðir Steinar Tómasson hrepptu í dag Akureyrarmeistaratitilinn í meistaraflokkum kvenna og karla í golfi. Lilja, sem er aðeins 16 ára, byrjaði vel og var í fyrsta sæti allt mótið en Víðir Steinar náði hins vegar ekki forystu fyrr en tvær holur voru eftir af mótinu – á 16. holu í dag.

Þetta er fyrsti Akureyrarmeistaratitill Lilju Marenar en Víðir Steinar fagnaði sigri í annað sinn; hann varð einnig Akureyrarmeistari 2016.

Eins og fram kom í frétt á akureyri.net í gær lauk keppni í öldungaflokkum á Akureyrarmótinu í gær en í dag kláruðu aðrir kylfingar sinn leik og ljóst hver eru Akureyrarmeistarar 2025 í öllum forgjafarflokkum.

Akureyrarmeistari! Víðir Steinar Tómasson eftir að sigurinn var í höfn í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • Valur Snær Guðmundsson var búinn að vera efstur í meistaraflokki karla allan tímann en fimm högga forskotið sem hann hafði fyrir lokahringinn gufaði upp á augabragði. Víðir Steinar náði að jafna við Val strax á þriðju holu þegar Valur lenti í vandræðum og á 16. holu náði hann forystunni með því að fá fugl. Eftir að þeir þrípúttuðu báðir á 18. flötinni var ljóst að Víðir Steinar hafði haft sigur; lék samtals á 294 höggum eða 10 höggum yfir pari. Valur þurfti að sætta sig við annað sætið á 295 höggum og Tumi Hrafn Kúld varð í þriðja sæti á 298 höggum. Víðir Steinar og Tumi Hrafn léku báðir á pari vallarins í dag, 71 höggi.

Valur Snær Guðmundsson undirbýr högg úr sandglompu í dag. Hann hafði forystu frá fyrsta degi Akureyrarmótsins þar til í dag að Víðir Steinar Tómasson skaust framúr honum á lokasprettinum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Tumi Hrafn Kúld fagnar Víði Steinari, nýkrýndum Akureyrarmeistara í dag. Tumi og Víðir léku báðir á pari vallarins í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • Lilja Maren Jónsdóttir hafði nokkuð trausta forystu alveg frá upphafi og sigraði með 10 högga mun. Hún lék hringina fjóra á samtals 314 höggum eða 30 höggum yfir pari. Björk Hannesdóttir lék best allra í kvennaflokknum í dag, á 77 höggum, og náði að jafna við Köru Líf Antonsdóttur í öðru sæti. Þær luku báðar leik á 324 höggum og deila öðru sætinu.

Björk Hannesdóttir lék besta allra í meistaraflokki kvenna í dag og komst upp að hlið Köru Lífar Antonsdóttur í annað sæti. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • Í 1. flokki kvenna var sigur Guðríðar Sveinsdóttur aldrei í hættu; hún lauk leik á 320 höggum. Halla Berglind Arnarsdóttir varð önnur á 340 höggum og bronsið hlaut Ragnheiður Svava Björnsdóttir á 357 höggum.
  • Guðrún Karítas Finnsdóttir var allan tímann með forystuna í 2. flokki kvenna og lék hringina fjóra á samtals 386 höggum. Birna Baldursdóttir varð önnur á 396 höggum.
  • Fimm högga forysta Bryndísar Björnsdóttur fyrir lokadaginn í 3. flokki kvenna hékk á bláþræði í dag en hún náði að lokum að tryggja sér eins höggs sigur. Lék á 312 höggum en Karólína Birna Snorradóttir endaði á 313 höggum. Linda Rakel Jónsdóttir varð þriðja á 323 höggum.
  • Sólveig María Árnadóttir gaf engin færi á sér í 4. flokki kvenna og sigraði á 309 höggum. Næst kom Þórunn Sigríður Sigurðardóttir á 317 og Páley Borgþórsdóttir varð þriðja á 319 höggum.
  • Hjá körlunum var mikil spenna í 1. flokki karla fyrir lokadaginn en Starkaður Sigurðarson lék vel í dag og stóð uppi sem sigurvegari á 313 höggum samanlagt. Jónatan Þór Magnússon kom næstur með 319 högg og Finnur Bessi Finnsson varð þriðji á 333 höggum.
  • Spennan var ennþá meiri í 2. flokki karla og þar náði Ingi Torfi Sverrisson að tryggja sér eins höggs sigur með pari á lokaholunni, eftir að Baldvin Orri Smárason hafði náð að vinna upp forskotið og jafna við Inga fyrir síðustu holuna. Þar fékk hann hins vegar skolla. Ingi Torfi sigraði á 336 höggum og Baldvin Orri var á 337. Óskar Jensson var líka í titilbaráttunni fram á síðustu holur en lauk leik á 340 höggum og varð að sætta sig við bronsið.

Kári Gíslason glaður í bragði eftir að hann sigraði í 3. flokki í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • Kári Gíslason lék á 81 höggi í 3. flokki karla í dag og stóð uppi sem öruggur sigurvegari á 346 höggum. Annar varð Stefán Sigurður Hallgrímsson á 359 höggum og þriðji Auðunn Aðalsteinn Víglundsson með 365 högg samanlagt.
  • Hjá 4. flokki karla komu Gunnar Gunnarsson og Árni Rúnar Magnússon hnífjafnir í mark á 292 höggum og þurfti bráðabana til að skera úr um sigurvegara. Þar hafði Gunnar betur og hampar því meistaratitlinum. Þriðji varð Stefán Bjarni Gunnlaugsson á 294 höggum.
  • Friðrik Tryggvi Friðriksson var öruggur sigurvegari í 5. flokki karla með 332 högg en Ómar Pétursson og Magnús G. Gunnarsson urðu jafnir á 352 höggum og deila silfrinu.
  • Loks vann Kristófer Áki Aðalsteinsson sigur í flokki 14 ára og yngri á 240 höggum samanlagt. Bjarki Þór Elíasson varð annar með 258 högg og Sesar Blær Gautason í þriðja sæti á 269 höggum.

Öll úrslit Akureyrarmótsins má sjá á þessari síðu.

Lokahóf mótsins verður á Jaðri í kvöld og þar fer verðlaunaafhending fram.

Meira á morgun