Fara í efni
Blak

KA í bikarúrslit – mjög öruggur sigur á HK

Helena Kristín Gunnarsdóttir, fyrirliði KA, smassar glæsilega í leik gegn Aftureldingu fyrr í vetur. Liðin gætu mæst í bikarúrslitaleiknum á laugardag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Íslands- og bikar­meist­ar­ar KA leika til úrslita í bikarkeppni kvenna í blaki á laugardaginn. KA-stelpurnar unnu HK mjög örugglega, 3:0, í dag í undanúrslitunum.

KA vann fyrstu hrinuna 25:14 og gaf tóninn hressilega. Sigur KA var einnig mjög öruggur í annarra hrinu, 25:15 en í þriðju hrinunni veittu HK-ingar meisturunum loks einhverja mótspyrnu að ráði enda að duga eða drepast. Kópavogsliðið komst í 16:10 en þá tók Mateo þjálfari KA leikhlé sem heppnaðist fullkomlega því lið hans gerði sex stig í röð og jafnaði. Leikmenn hans létu að sjálfsögðu ekki þar við sitja og tryggðu sér öruggan sigur, 25:19 og þar með farseðilinn í úrslitaleikinn á laugardag.

KA mæt­ir annað hvort Blak­fé­lagi Hafn­ar­fjarðar eða Aft­ur­eld­ingu í úr­slita­leiknum. Liðin mætast í kvöld. Úrslitaleikurinn hefst kl. 12.30 á laugardaginn og verður í beinni útsendingu á RÚV.

VIÐBÓT Í KVÖLD - Afturelding vann Blak­fé­lag Hafn­ar­fjarðar mjög örugglega, 3:0, og verður mótherji KA á laugardaginn.