Fara í efni
Blak

Hallgrímur bestur hjá KA og Snorri efnilegastur

Hallgrímur Mar Steingrímsson og Hjörvar Maronsson formaður knattspyrnudeildar KA á lokahófinu í gærkvöldi. Mynd af vef KA.

Hallgrímur Mar Steingrímsson var valinn besti leikmaður knattspyrnuliðs KA á keppnistímabilinu sem lauk í gær. Þetta var tilkynnt á lokahófi knattspyrnudeildar sem fram fór í gærkvöldi.

„... Grímsi átti frábært sumar og fór auk þess fyrir markaskorun liðsins,“ segir á vef KA í morgun. Hallgrímur var markahæstur KA-manna í sumar með 16 mörk; hann gerði 13 í Bestu deildinni, tvö í Sambandsdeild UEFA og eitt í bikarkeppninni KSÍ, Mjólkurbikarnum.

„Það má með sanni segja að Grímsi sé búinn að endurskrifa sögu knattspyrnudeildar KA en hann er meðal annars bæði leikjahæsti og markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins.“

Snorri Kristinsson var valinn efnilegasti leikmaður KA í sumar.

Snorri Kristinsson var valinn efnilegasti leikmaður KA en Snorri sem er aðeins 16 ára gamall hefur þrátt fyrir ungan aldur nú þegar komið við sögu í átta leikjum í meistaraflokki, í Bestu deildinni, bikarkeppninni og Meistarakeppni KSÍ „en hann átti meðal annars glæsilega stoðsendingu í 5-1 sigri KA á ÍA á dögunum,“ segir á vef KA. „Snorri stendur í ströngu þessa dagana með U17 ára landsliði Íslands sem er að keppa í undankeppni EM 2026 og var hann því vant við látinn á lokahófinu.“

Í lokahófinu í gær hlaut markvörðurinn Steinþór Már Auðunsson viðurkenningu í tilefni þess að hann lék 100. keppnisleikinn fyrir KA í sumar og þá hlaut grillhópur KA Dorrann, grip sem gefinn var til minningar um Steindór heitinn Gunnarsson og er veittur dyggum stuðningsmönnum og bakhjörlum KA.

  • Nánar hér á vef KA:

Hallgrímur Mar bestur á lokahófi KA