Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Margir könnuðust við kylfingana á myndinni

Margir þekktu einhvern af kylfingunum sex á gömlu íþróttamyndinni sem akureyri.net birti í gær og einhverjir þekktu þá auðvitað alla. 

Nú skal upplýst hverjir þetta eru. Frá vinstri: Árni Jónsson, Gunnar Sólnes, Karl Frímannsson, Hafliði Guðmundsson, Þráinn Lárusson og Jón Þór Gunnarsson.

Í gær kom fram að fjórir þessara kylfinga hefðu orðið Akureyrarmeistarar í golfi:

  • Hafliði Guðmundsson náði þeim áfanga árið 1954 og aftur 1966.
  • Gunnar Sólnes varð Akureyrarmeistari þrjú ár í röð, 1960, 1961 og 1962 og síðan aftur 1968.
  • Árni Jónsson varð Akureyrarmeistari 1975.
  • Jón Þór Gunnarsson varð Akureyrarmeistari 1981.

Í gær var einnig nefnt að einn fyrrverandi Akureyrarmeistaranna tæki þátt í Akureyrarmótinu að þessu sinni;  Jón Þór Gunnarsson lék í flokki 50 ára og eldri.

Einnig var greint frá því að sonur eins kylfinganna á myndinni hefði lokið leik í gær; það var Jón Steindór Árnason, sonur Árni Jónssonar.

Þá var sagt ekki ólíklegt að afastelpa eins kylfinganna myndi feta í fótspor afa síns og föður og verða Akureyrarmeistari. Svo fór einmitt;  Lilja Maren Jónsdóttir er dóttir Jóns Steindórs Árnasonar, sem varð Akureyrarmeistari 2005, og afi hennar því Árni Jónsson.

SAAB-TOYTOA keppni 1977

Eftir grúsk komst akureyri.net að því að myndin er af verðlaunahöfum í svokallaðri SAAB-TOYOTA keppni sem fram fór á Jaðarsvelli í ágúst árið 1977. Leiknar voru 36 holur og keppt var með og án forgjafar.

Myndin birtist í Akureyrarblaðinu Íslendingi 25. ágúst og þar segir meðal annars: 

Efstir og jafnir án forgjafar urðu Gunnar Sólnes og Árni Jónsson á 162 höggum. Fóru þeir í bráðabana um 1. sætið og þá sigraði Gunnar á 2. holu.

Með forgjöf sigraði Karl Frímannssoná 143 höggum, Hafliði Guðmundsson varð annar á 147 höggum og Halldór Rafnsson 3. á 148 höggum.

Í drengjaflokki sigraði Jón Þór Gunnarsson bæði með og án forgjafar. Fór Jón á 156 höggum án forgjafar, en 136 með forgjöf. Í öðru sæti án forgjafar varð Bergþór Karlsson á 165 höggum og Ágúst Magnússon varð þriðji. Í öðru sæti með forgjöf varð Þráinn Lárusson á 138 höggum, en Baldur Sveinbjörnsson og Bergþór Karlsson urðu jafnir í 3.-4. sæti á 139.