Fara í efni
Baldvin Þór Magnússon

Íþróttahátíð, bikar og toppleikir í boði

Það verður fremur rólegt í íþróttalífinu fram eftir vikunni, en nóg um að vera frá fimmtudegi til sunnudags. Stórviðburður reyndar á dagskrá á fimmtudag þó ekki sé um íþróttakappleik að ræða því nú er komið að árlegri Íþróttahátíð Akureyrar þar sem meðal annars verður kunngjört hvaða einstaklingar eru íþróttafólk Akureyrar 2025.

Handboltakarlar eru reyndar enn í EM-fríi, að minnsta kosti frá keppni, en konurnar eiga heimaleik á fimmtudagskvöld, mikilvægan leik í neðri hluta deildarinnar. Íshokkílið bæjarins spila ekki í þessari viku, en bæði Þórsliðin í körfuboltanum eiga heimaleik, toppslagur hjá kvennaliðinu á laugardag. 

Þó enn sé janúar er keppni í Lengjubikar karla í knattspyrnu að hefjast og spila bæði karlalið Akureyrar á laugardag; Þórsarar mæta Völsungi á Húsavík, en KA tekur á móti KR í Boganum. Kvennadeild Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu er enn í gangi, leikur í Boganum á laugardag. Þá má nefna skondna heimsókn karlaliðs KA í blaki til Hveragerðis þar sem spilað er í átta liða úrslitum bikarkeppninnar á laugardag og svo toppslagur í Íslandsmótinu á sunnudag. 

FIMMTUDAGUR 29. JANÚAR - Íþróttahátíð Akureyrar

Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbær bjóða bæjarbúum til athafnar í Hofi fimmtudaginn 29. janúar kl. 17.30 þar sem kjöri íþróttakonu og íþróttakarls Akureyrar fyrir árið 2025 verður meðal annars lýst.

Nánar má lesa um viðburðinn á vef ÍBA: Íþróttahátíð Akureyrar | Íþróttabandalag Akureyrar

- - -

KA/Þór á mikilvægan heimaleik fyrir höndum í 15. umferð Olísdeildarinnar þegar Stjarnan úr Garðabæ kemur norður á fimmtudaginn. KA/Þór tapaði naumlega fyrir Fram í síðustu umferð og situr í 6. sæti deildarinnar með 11 stig, en Stjarnan er í 7. sætinu með fimm stig. 

  • Olísdeild kvenna í handknattleik
    KA-heimilið kl. 19
    KA/Þór - Stjarnan

Jafntefli varð í leik þessara liða í Garðabæ í nóvember, 22-22.

FÖSTUDAGUR 30. JANÚAR - körfubolti

Karlalið Þórs í körfuknattleik hefur verið í erfiðri baráttu við neðri enda 1. deildarinnar. Þórsarar hafa unnið þrjá leiki af fyrstu 15 og eru í 10. sæti deildarinnar, fyrir neðan eru aðeins Hamar með tvo sigra og Fylkir með einn. Haukar eru í 4. sæti deildarinnar með 11 sigra, eins og Sindri sem er í 3. sætinu. 

  • 1. deild karla í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Haukar

Fyrri leik liðanna lauk með stórsigri Hauka í nóvember, 110-68.

LAUGARDAGUR 31. JANÚAR - fótbolti, körfubolti, blak

Lengjubikar karla í knattspyrnu er að bresta á og byrjar með heimsókn Þórsara til Húsavíkur. Þórsarar leika í riðli 2 ásamt Aftureldingu, Gróttu, Val, Völsungi og ÍA. Heimaleikir liðsins verða á móti Val og Gróttu. 

  • Lengjubikar karla í knattspyrnu, A-deild
    GPG-völlurinn á Húsavík kl. 14
    Völsungur - Þór

- - -

Karlalið KA hefur einnig leik í Lengjubikarnum á laugardag og byrja á að taka á móti KR í Boganum.  KA er í riðli 3 í A-deild ásamt Grindavík, KR, Njarðvík, Víkingi og ÍR. Heimaleikir liðsins verða gegn KR, Víkingi og Grindavík. 

  • Lengjubikar karla í knattspyrnu, A-deild
    Boginn kl. 15
    KA - KR

- - -

Keppni í kvennadeild Kjarnafæðimótsins í knattspyrnu er langt komin og ljóst að Þór/KA-liðin tvö enda í tveimur efstu sætunum. Þór/KA2 mætir liði Tindastóls í Boganum á laugardag. 

  • Kjarnafæðimótið í knattspyrnu, kvennadeild
    Boginn kl. 17
    Tindastóll - Þór/KA2

- - -

Kvennalið Þórs í körfuknattleik er enn ósigrað í 1. deildinni og má gera ráð fyrir að næsti leikur liðsins ráði nokkuð miklu um framhaldið. Þór er á toppi 1. deildarinnar með 11 sigra, en Aþena hefur unnið níu leiki og tapað einum, heimaleik sínum gegn Þór. Þessi lið mætast í Íþróttahöllinni á laugardag í toppslag deildarinnar.

  • 1. deild kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18
    Þór - Aþena

- - -

Karlalið KA í blaki á nokkuð skondna helgi fram undan. KA sækir Hamar heim í Hveragerði og mætast liðin tvisvar, fyrst á laugardag og svo aftur á sunnudag. Laugardagsleikurinn er öllu mikilvægari því hann er í átta liða úrslitum bikarkeppninnar, Kjörísbikarsins, og sigurliðið fer því áfram í úrslitahelgina í bikarnum. Óhætt er að reikna með hörkuviðureign milli tveggja sterkra liða, en Hvergerðingar eru efstir í deildarkeppninni.

  • Kjörísbikar karla í blaki, átta liða úrslit
    Íþróttahúsið í Hveragerði kl. 18
    Hamar - KA

SUNNUDAGUR 1. FEBRÚAR - blak

Seinni viðureign KA og Hamars í Hveragerði um helgina er deildarleikur, en mjög jöfn og spennandi keppni er á toppi Unbroken-deildarinnar. Hamar er í efsta sætinu með 35 stig eftir 15 leiki, Afturelding með 34, Þróttur R. með 34 og KA með 33 og á leik til góða á hin liðin. KA tapaði dýrmætum stigum þrátt fyrir sigur á Vestra í síðustu umferð, en sú viðureign endaði 3-2 fyrir KA.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    Íþróttahúsið í Hveragerði kl. 14
    Hamar - KA