Handbolti: Þór átti aldrei möguleika gegn HK

Þórsarar tóku á móti HK í 7. umferð Olísdeildar karla í Höllinni í kvöld, fimmtudagskvöld. Skemmst er frá því að segja að gestirnir voru alltaf skrefinu á undan í leiknum og unnu öruggan 8 marka sigur, 32:24.
Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir bæði þessi lið en þau voru jöfn að stigum ásamt Fram í 9.-11. sæti deildarinnar. Sigurliðið í þessum leik myndi spyrna sér frá botninum og komast á ögn þægilegri stað.
Leikurinn varð hins vegar aldrei spennandi. Sóknarleikurinn gekk illa hjá Þór í fyrri hálfleik og um hann miðjan voru gestirnir komnir með fjögurra marka forskot, 9:5. Þeir héldu þeim mun fram að hléi og gott betur, því HK skoraði þrjú síðustu mörk fyrri hálfleiks. Þægilegt sex marka forskot, 17:11 í leikhléi. Ekki var það markvarslan hjá HK sem stoppaði Þórsara í að gera fleiri en þessi 11 mörk, því Róbert í HK-markinu varði bara fjóra bolta í fyrri hálfleiknum.
Þórður Tandri Ágústsson svífur inn af línunni og skorar í eitt skipti af fjórum í kvöld.
Þórsarar minnkuðu muninn en HK jók hann að bragði
Þórsarar hresstust aðeins í upphafi seinni hálfleiks og um hann miðjan höfðu þeir náð að naga niður helming forskotsins. 22:19 var staðan þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Eftir það gekk fátt upp, HK jók aftur forskotið og spilaði af skynsemi. Þórsarar reyndu m.a. 7 á 6 í sókninni en það gekk engan veginn upp. Lokatölur 32:24 HK í vil.
Gengi Þórsara í deildinni hefur aðeins dalað eftir ágæta byrjun og liðið þarf að fara að hala inn stig í næstu leikjum. Næsti leikur er afar þýðingarmikill en Selfyssingar koma í heimsókn í Höllina næstkomandi fimmtudag. Selfyssingar eru stigi fyrir ofan Þór í deildinni og ljóst að sá leikur er ekki síður mikilvægur en leikurinn í dag.
Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 10, Þórður Tandri Ágústsson 4, Aron Hólm Kristjánsson 3, Oddur Gretarsson 2 (1 víti), Þormar Sigurðsson 2, Hákon Ingi Halldórsson 1, Igor Chiseliov 1, Jón Ólafur Þorsteinsson 1.
Varin skot: Nikola Radovanovic 8, Patrekur Guðni Þorbergsson 4.
Mörk HK: Andri Þór Helgason 10 (4 víti), Ágúst Guðmundsson 8, Hjörtur Ingi Halldórsson 5, Tómas Sigurðarson 3, Haukur Ingi Hauksson 2, Jóhann Birgir Ingvarsson 2, Sigurður Jefferson Guarino 1, Örn Alexandersson 1.
Varin skot: Róbert Örn Karlsson 6, Rökkvi Pacheco Steinunnarson 0.