Þrír deildarleikir karla og landsleikir kvenna

Þrír karlaleikir eru fram undan í fótboltanum þegar líður á vikuna og um helgina. KA á tvo leiki í Bestu deildinni og Þór einn í Lengjudeildinni. Þór/KA er komið í frí frá leikjum til 7. júní vegna landsleikja A-landsliðsins og U23-landsliðsins. Þar á félagið tvo fulltrúa; Sandra María Jessen verður með A-landsliðinu í tveimur leikjum í Þjóðadeild UEFA og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir með U23 í tveimur æfingaleikjum gegn Skotlandi.
Kimberley Dóra og Sandra María í leik Þórs/KA og Stjörnunnar á laugardag. Báðar eru á leiðinni í landsliðsverkefni, Sandra María með A-landsliðinu og Kimberley Dóra með U23. Myndir: Ármann Hinrik.
FIMMTUDAGUR 29. MAÍ - fótbolti
Baráttan í neðri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu er hörð og hvert stig mikilvægt. KA náði sér í þrjú mikilvæg stig í síðustu umferð með 1-0 heimasigri á Aftureldingu. Stigin þrjú dugðu þó ekki nema til að færa liðið upp um eitt sæti, af botninum í 11. sætið. ÍA er í botnsæti deildarinnar með sex stig, en KA og ÍBV þar fyrir ofan með átta stig.
KA sækir Fram heim í næsta leik, en stutt er síðan þessi lið mættust á heimavelli KA í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. Þar höfðu Framarar betur. Fram er í 5. sæti deildarinnar með 12 stig.
- Besta deild karla í knattspyrnu
Lambhagavöllurinn í Úlfarsárdal kl. 16:15
Fram - KA
KA og Fram hafa mæst 38 sinnum í efstu deild Íslandsmótsins. Tæp 87 ár eru liðin frá fyrstu viðureign þessara liða í efstu deild, en þau mættust á Melavellinum 25. júní 1932. KA vann þann leik 2-0. Framarar hafa hins vegar haft aðeins betur í innbyrðis viðureignum þessara liða í efstu deild, unnið 17 leiki á móti 13 sigrum KA. Átta sinnum hafa liðin gert jafntefli.
Þessi lið mættust þrisvar í Bestu deild karla í fyrra og hafði KA betur í öll skiptin, 3-2 á heimavelli og 2-1 á útivelli í deildarkeppninni og svo 4-1 á útivelli í keppni í neðri hluta deildarinnar í lok móts.
FÖSTUDAGUR 30. MAÍ - fótbolti
Þórsarar mjökuðu sér upp um þrjú sæti í Lengjudeild karla í knattspyrnu með 4-3 sigri á Grindvíkingum á útivelli á laugardag, sitja nú í 4. sætinu með sjö stig, tveimur stigum minna en topplið Keflavíkur. Nú er komið að heimaleik og tekur Þór á móti Fylki í Boganum á föstudag.
- Lengjudeild karla í knattspyrnu
Boginn kl. 18:00
Þór - Fylkir
Fylkir er þremur sætum neðar en Þór, með fimm stig í 7. sæti deildarinnar. Fylkir tapaði 1-2 á heimavelli fyrir Þrótti síðustu umferð, en Þór vann Grindavík á útivelli, í mikilli markaveislu. Þessi félög mættust ekki í fyrra þar sem Fylkir var í Bestu deildinni, en féll niður í Lengjudeildina.
SUNNUDAGUR 1. JÚNÍ - fótbolti
Það er stutt á milli leikja hjá KA í lok vikunnar. Um það bil þremur sólarhringum eftir heimsóknina í Úlfarsárdalinn tekur KA á móti Stjörnunni í 10. umferð deildarinnar. Bæði liðin spila á fimmtudag, Stjörnumenn reyndar þremur tímum síðar en KA.
- Besta deild karla í knattspyrnu
Greifavöllurinn kl. 17:00
KA - Stjarnan
KA og Stjarnan hafa mæst 21 sinni í efstu deild Íslandsmótsins. KA hefur oftar haft betur, unnið níu leiki, en Stjarnan sex. Fyrstu viðureignir þessara félaga í efstu deild Íslandsmótsins voru 1990 og unnust báðir leikirnir það árið á útivelli. KA vann 3-1 í Garðabænum, en Stjarnan vann 3-0 á Akureyrarvelli.
Stjarnan vann heimaleik sinn gegn KA í fyrra 5-0, en liðin gerðu síðan 1-1 jafntefli á Akureyri í seinni leiknum.