Fara í efni
Aron Einar Gunnarsson

Þór/KA og Þór í eldlínunni í dag

Sandra María Jessen og Egill Orri Arnarsson fagna mörkum. Vonandi fagna þau áfram í dag þegar liðin þeirra etja kappi við Keflavík og Fjölni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Boltinn heldur áfram að rúlla og í dag eiga meistaraflokkar Þórs og Þórs/KA leiki. Þór/KA tekur á móti Keflvíkingum í Boganum kl. 18, en Þórsarar halda suður og mæta Fjölni í Egilshöllinni í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar kl. 17.

Þór og Fjölnir sitja í 2. og 3. sæti Lengjudeildarinnar, en að vísu aðeins tveimur umferðum lokið. Fjölnir hefur unnið báða sína leiki og er með sex stig, eins og Njarðvík, en Þórsarar gerðu jafntefli í fyrsta leik og unnu í annarri umferð, eru með fjögur stig. Fjölnismenn hafa slegið út KH og Selfoss á leið sinni í 16 liða úrslitin, en Þórsarar unnu KFA heima og síðan Gróttu úti. Þór og Fjölnir hafa aðeins einu sinni áður mæst í bikarkeppni í meistaraflokki karla. Það var 2018 þegar Þórsarar fóru áfram eftir 1-1 jafntefli og vítaspyrnukeppni. 

Þór/KA og Keflavík hafa átt ólíku gengi að fagna í fyrstu fjórum umferðum Bestu deildar kvenna. Okkar konur í Þór/KA hafa nú unnið þrjá leiki í röð, eru í 3. sætinu með níu stig og markatöluna 9-5. Keflvíkingum hefur hins vegar ekki enn tekist að ná sér í stig, hafa tapað fjórum leikjum og með markatöluna 5-12. Þessi lið mættust þrisvar í fyrrasumar. Fyrst unnu Keflvíkingar fyrri deildarleikinn á Akureyri og síðan heimaleik í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar, en Þór/KA vann seinni leikinn í deildinni, sem fram fór í Keflavík.