Fara í efni
Aron Einar Gunnarsson

Óskar Þór ekki áfram með karlalið Þórs

Óskar Þór Þorsteinsson les duglega yfir sínum mönnum í leikhléi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fram hefur komið á samfélagsmiðlum körfuknattleiksdeildar Þórs og var jafnframt tilkynnt á lokahófi deildarinnar á laugardag að Óskar Þór Þorsteinsson, sem þjálfað hefur meistaraflokk karla undanfarin tvö tímabil, verði ekki áfram með liðið.

Óskar Þór tók við Þórsliðinu sumarið 2022 sem var hans fyrsta starf sem aðalþjálfari í meistaraflokki, en áður hafði hann verið aðstoðarþjálfari hjá Álftanesi. Fyrsti veturinn með Þórsliðið var erfiður og vann liðið aðeins tvo leiki, en hélt sæti sínu í deildinni þar sem liðum var fjölgað í 1. deild karla. Liðið tók svo stór skref fram á við í vetur og endaði í 5. sæti deildarinnar eftir frábæran endasprett, vann Skallagrím í oddaleik í átta liða úrslitum umspils um sæti í Subway-deildinni, en beið lægri hlut fyrir ÍR-ingum í undanúrslitum. 

Óskar kveðst skilja stoltur við félagið og þetta verkefni og þakklátur fyrir að fá það traust sem stjórnin sýndi honum og „þakklátur fyrir að hafa fengið að vera Þórsari,“ eins og hann orðaði það í ræðu á lokahófinu á laugardagskvöldið. „Sjálfur hef ég fengið að sjá frábæran hóp ungra manna vaxa og dafna og takast á við mótlæti sem fáir hópar hafa upplifað en eins og þið öll vitið þá hafa síðustu ár hjá meistaraflokki karla verið ótrúlega erfið.“ Hann benti jafnframt á að það geti tekið langan tíma að sjá afraksturinn af þessu starfi og starfið geti verið vanþakklátt. Þetta árið hefur uppskeran þó svo sannarlega ekki setið á sér og má sjá frábæran vöxt á öllum sviðum deildarinnar. Þrotlaus vinna í viðbót við gott gengi meistaraflokkanna í ár hefur leitt til að grasrótin í félaginu hefur vaxið ört og ótrúlegt er að bera saman árin hjá yngri flokkunum en á dögunum fórum við yfir 300 skráða iðkendur sem er ótrúlegt afrek. Þessi fjölgum mun svo skila sér inn í meistaraflokksstarfið, snjóboltinn heldur áfram að rúlla og deildin stækkar og styrkist.“ 

Óskar Þór hefur ekki ráðið sig í annað starf og kveðst afslappaður yfir því hvað tekur við.