Félagar í GA orðnir rúmlega þúsund

Mikill uppgangur hefur verið í starfsemi Golfklúbbs Akureyrar undanfarin ár, aðstaðan til golfiðkunar allt árið verður sífellt betri og klúbbfélögum fjölgar mikið. Þeir eru komnir yfir þúsund í fyrsta sinn og líkur eru á að þeim haldi enn áfram að fjölga. Áform eru um að stækka Jaðarsvöll en nokkur ár eru í að þau geti orðið að veruleika.
Blaðamaður akureyri.net settist niður með Steindóri Kr. Ragnarssyni, sem er bæði framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar og vallarstjóri Jaðarsvallar, og spurði hann út í þróunina í starfsemi klúbbsins. „Félagar í klúbbnum eru komnir í 1060 en voru 920 í fyrra. Aukningin er tvöfalt meiri en aukningin í fyrra, sem þá var metár í fjölgun,“ segir Steindór.
Púttað á 2. flöt Jaðarsvallar á dögunum. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Meðlimir spila oftar og ferðamönnum fjölgar
Spiluðum hringjum á Jaðarsvelli hefur fjölgað hlutfallslega meira en það sem nemur auknum meðlimafjölda í klúbbnum. Steindór segir að það séu orðnir fleiri og fleiri sem spila meira golf. Og íslenskir ferðamenn eru mjög duglegir að heimsækja Jaðarsvöll og spila. „Við höfum alltaf viljað og þurft ferðamenn til að hjálpa til í okkar rekstri en klúbbar á höfuðborgarsvæðinu eru með það marga félagsmenn að þeir eru ekkert að sækjast eftir lausatraffík,“ útskýrir Steindór. Flestir golfklúbbar á höfuðborgarsvæðinu eru fullsetnir og jafnvel margra ára biðlisti eftir að komast að í þá. En hvað getur Golfklúbbur Akureyrar vaxið mikið áður en svipuð staða kemur upp hér?
Steindór segir að erfitt sé að meta hvort félagsmönnum muni halda áfram að fjölga á sama hraða en ef það gerist fer að styttast í að klúbburinn fyllist. Mögulegt sé að vera með um 1200-1400 félagsmenn á 18 holu velli. En þá sé orðið vel setið og lítið afgangs fyrir ferðamennina. „Það væri auðvitað mjög leiðinlegt ef við þyrftum að fara að neita gestum að koma og spila hjá okkur,“ segir Steindór.
Slegið af „teig“ á æfingasvæðinu Klöppum.
Aukningin hefur ekki farið framhjá félagsmönnum í GA en í sumar hafa þeir þurft að ákveða með lengri fyrirvara en þeir hafa vanist hvenær þeir ætla í golf, því rástímar hafa fyllst fljótt. Steindór segir þetta vissulega vera þannig, fólk geti komist í golf en þarf þá að plana fram í tímann. En þetta sé vissulega ákveðið lúxusvandamál.
Stækkun Jaðarsvallar í kortunum
Steindór bendir á að þessi þétta traffík skapi gríðarlegt álag á golfvöllinn. Sérstaklega þessa þrjá mánuði yfir hásumarið og reyndar sé það þannig að 6 mánaða álag á íslenskum golfvöllum sé meira en tíðkast á 12 mánuðum á golfvöllum erlendis. Gott veður í sumar hafi haft jákvæð áhrif á aðsóknina en Steindór nefnir líka þá byltingu sem varð í aðstöðumálum klúbbsins þegar öll starfsemin var sameinuð á Jaðri sl. vetur. Áður var klúbburinn með inniaðstöðu í kjallara Íþróttahallarinnar en í viðbyggingu við klúbbhúsið á Jaðri er nú komin fyrsta flokks aðstaða til golfiðkunar. Þar eru sex golfhermar af fullkomnustu gerð, ásamt pútt- og vippflötum. „Aðstaðan er orðin það flott að það trekkir að. Það er mikill munur að vera kominn með allt á sama stað, ekki síst upp á æfingarnar hjá krökkunum. Hægt að hoppa inn og út eftir þörfum,“ segir Steindór en ungu iðkendunum í klúbbnum fjölgar eins og öðrum.
Fyrir hátt í áratug var farið að leggja drög að stækkun Jaðarsvallar og undanfarin ár hefur verið losunarsvæði fyrir jarðveg suðvestan við Jaðarsvöll, þar sem áformað er að móta land og bæta við golfbrautum.
Góð aðstaða er til þess að slá af þaki Klappa.
Kylfingar líka duglegri að æfa sig
Og það er ekki bara þannig að akureyrskir kylfingar séu duglegir að spila golf á Jaðarsvelli, því notkunin á æfingasvæðinu á Klöppum hefur líka aukist verulega. Þar er hægt er fá fötu af golfboltum fyrir smávægilegt gjald og æfa sveifluna með því að slá af mottu. Í vor var settur upp Trackman tæknibúnaður í básana, sem gjörbyltir möguleikum kylfinga á að fá upplýsingar um höggin sín. Í hverjum bás er kominn stór skjár þar sem kylfingar geta séð ýmsar upplýsingar um höggin sem þeir slá og það auðveldar þeim að greina þau atriði sem þeir þurfa að vinna betur í. Auk Klappa er líka fyrirtaks aðstaða við Jaðar til að æfa vipp og pútt og ekki má gleyma Dúddisen sem er lítill 6 holu völlur sem hentar vel fyrir þau sem eru ekki tilbúin til að fara út á „stóra“ völlinn. Það má því með sanni segja að aðstaðan á Jaðri sé orðin eins og best gerist og hentar bæði þeim sem iðka golf sér til skemmtunar og heilsubótar og þeim sem stefna að árangri í keppni sem íþróttamenn í greininni.
Skjár eins og þessi eru við hvern bás á Klöppum.