Fara í efni
Amtsbókasafnið

„Trúi og vona að þetta verði mitt mót“

Sandra María Jessen í fyrsta leik EM gegn Finnlandi í miðvikudaginn var. Mynd af Instagram reikningi KSÍ.

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, er glæsilegur fulltrúi Akureyrar á Evrópumóti landsliða í knattspyrnu sem stendur yfir í Sviss. Hún var í byrjunarliðinu þegar Ísland tapaði 1:0 fyrir Finnlandi í fyrsta leik í Thun og gera verður ráð fyrir að hún verði ein þeirra 11 sem hefja leik í kvöld þegar Ísland mætir heimamönnum, Svisslendingum, í höfuðborginni Bern.

Rifjað var upp á Vísi í gær að Sandra gat ekki spilað á EM fyrir þremur árum því þá var hún nýbúin að eignast barn og þó að hún hafi verið með á EM 2017 þá hafði hún slitið krossband í hné sama ár. Á Vísi og í fréttatíma Sýnar (áður Stöðvar 2) í gær er að finna viðtal við Söndru Maríu í tilefni leiksins í dag. 

„Ég er rosalega spennt og trúi og vona að þetta verði mitt mót,“ segir Sandra í viðtalinu.

„Það er mjög margt búið að gerast síðan árið 2017, þegar ég fór síðast á stórmót. Búin að eignast eina stelpu og ganga í gegnum erfið meiðsli, mikið af hólum og hæðum. Búin að fara út í atvinnumennsku og koma aftur heim,“ segir Sandra í viðtali við Sindra Sverrisson við hótel landsliðsins við Thun-vatnið. „Það er ýmislegt sem er komið núna í reynslubankann sem mun nýtast manni vel núna. Þekkingin frá því að hafa verið á stórmóti hjálpar manni líka klárlega til að róa taugarnar og komast í gegnum svona stórmót, og njóta þess meira en maður kannski gerði á sínu fyrsta móti.“

Leikur Íslands og Sviss hefst klukkan 19.00 að íslenskum tíma og verður sýndur á RÚV.

Smellið á skjáskotið úr fréttatíma Sýnar hér að neðan til að sjá viðtalið