Fara í efni
Alfreð Gíslason

Gervigrasvöllurinn verður klár í haust

Mynd: Þorgeir Baldursson

Gervigrasvöllurinn á félagssvæði Íþróttafélagsins Þórs verður tilbúinn í haust, segir Dóra Sif Sigtryggsdóttir, forstöðumaður rekstrardeildar á umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar.

Í síðustu viku birtist harðorð aðsend grein eftir Jón Stefán Jónsson á akureyri.net þar sem hann furðar sig á seinagangi og töfum framkvæmda við gervigrasvöll á félagssvæði Íþróttafélagsins Þórs. Hann segist óttast að ef framkvæmdir haldi áfram að dragast verði gervigrasið ekki komið á völlinn fyrir veturinn og þar með komist hann ekki í gagnið fyrr en einhvern tímann á næsta ári. Og það sé verulega slæmt fyrir stóran hóp knattspyrnuiðkenda, ekki síst börn.

Dóra Sif Sigtryggsdóttir segir að vissulega hafi orðið tafir á framkvæmdum við völlinn og að þær hafi verið meiri en gert var ráð fyrir. Ástæðuna megi rekja til mikils jarðvegssigs. „Svæðið var lengi að síga og hélt áfram að síga mikið lengur en búist var við. Þess vegna þurftu aðrar framkvæmdir að bíða,“ segir Dóra og bætir við að nú sé siginu loksins lokið og ekki sé von á að það eigi eftir að síga neitt meira þegar fram í sækir. „Við viljum að sjálfsögðu gera þetta vel og þannig að það verði engin vandamál í framtíðinni,“ bætir Dóra við. 

Að sögn Dóru varð eiginlega strax ljóst þegar svæðið fór að síga svona mikið að upphaflegar áætlanir um að klára völlinn í lok júní voru óraunhæfar, enda hafi ekki verið að búið að ljúka útboði þegar fyrstu tímaáætlanir voru gerðar. Nú þegar ljóst sé að jarðvegssigið er úr sögunni fari framkvæmdir á fullt. „Völlurinn verður klár í haust,“ segir Dóra. Vissulega séu mörg handtök eftir, lagnavinna er að hefjast og þegar búið er að grófmóta völlinn á eftir að steypa fyrir ljósamöstrum og steypa tæknirými. Að því loknu er hægt að fínjafna svæðið, leggja snjóbræðslu og síðan jöfnunarlag, áður en sjálft gervigrasið kemur. Dóra segir að stefnt sé að því að gervigrasið verði lagt í lok ágúst en þorir ekki að lofa hvenær fyrsti kappleikurinn geti farið fram, því huga þarf að girðingum og fleiri verkefnum tengdum svæðinu til að kröfur KSÍ verði uppfylltar. 

Aðspurð segir Dóra að þessar tafir hafi ekki teljandi áhrif á kostnaðaráætlanir verksins enda sé gert ráð fyrir óvissuþáttum. „ Við viljum fyrst og fremst vanda okkur, þetta er framkvæmd til framtíðar, “ sagði Dóra að lokum.